Í kvöld kl. 20.30 mun leikhópur Borgarleikhússins leiklesa hluta úr samtali þingmanna á veitingastaðnum Klaustri. Eins og flestir vita var samtal þeirra tekið upp og hafa fjölmiðlar, þar á meðal DV, birt innihald þess síðustu daga, en DV var á meðal þriggja fjölmiðla sem fékk upptökurnar sendar. Bergur Þór Ingólfsson leikstýrir verkinu. Er lesturinn byggður á fréttum DV, Stundarinnar og Kvennablaðsins.
„Eitt af meginhlutverkum leikhússins er að varpa ljósi á málefni líðandi stundar. Með þessum viðburði leitast leikhúsið við að skoða ábyrgð og orðræðu kjörinna fulltrúa í lýðræðislegu samhengi,“ segir í tilkynningu frá Borgarleikhúsinu.
Samtalið sem tekið var upp er á milli fjögurra þingmanna Miðflokksins, Gunnars Braga Sveinssonar, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, Bergþórs Ólasonar og Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, við þingmenn Flokks fólksins, Karl Gauta Hjaltason og Ólafur Ísleifsson.
Viðburðurinn, sem verður á Litla sviði leikhússins, er öllum opinn og aðgangur ókeypis. Fyllist salurinn verður einnig streymt í forsal leikhússins. Þá mun DV einnig birta streymi á dv.is.
Húsið mun opna kl. 20.00 og er fólk hvatt til að mæta tímanlega, en verkið mun standa yfir í um klukkustund.