Þriðja og síðasta bók Þorgríms Þráinssonar um franska strákinn Henri kom út í gær, Henri rænt í Rússlandi.
Af því tilefni skellti Þorgrímur í færslu á Facebook þar sem hann býður öllum landsmönnum, hvorki meira né minna, í skúffuköku með tilheyrandi heima hjá honum á laugardag.
Það er því tilvalið að kíkja á kappann, glugga í bókina og fá sér skúffukökusneið.
Mér skilst að þriðja og síðasta bókin mín um franska strákinn Henri hafi farið í verslanir í dag, 8. nóvember. Að því tilefni býð ég öllum landsmönnum, 355.000 talsins, í skúffuköku með rjóma, kaffi eða mjólk á laugardaginn milli kl. 14:00 og 17:00 heima hjá mér, að Tunguvegi 12 í Reykjavík. Það er EKKI skilyrði að kaupa bók en ég krefst þess að þið smakkið súkkulaðikökuna. Jú, líklega verða bækur á svæðinu sem hægt er að kippa með sér fyrir 3.500 krónur (góður afsláttur) en ég er ekki með posa!
Eins og þið vitið er Henri franski gaurinn sem hrellti landsliðsstrákana á EM í Frakklandi í fyrstu bókinni en varð vinur þeirra. Í bók númer tvö var honum boðið á landsleiki á Íslandi en lenti óvart í Færeyjum. Það kom mér því á óvart að landsliðsgaurarnir skyldu nenna að púkka upp á guttann og bjóða honum á leik Íslands gegn Argentínu á HM í Rússlandi í sumar. Gaurinn þiggur boðið og leggur af stað í járnbrautarlest ásamt Míu vinkonu sinni. Þau hitt Pútín forseta í lestinni sem býður þeim að horfa á slag Trump en síðan er þeim rænt í skjóli nætur. Og þá hefst vesen, meira að segja bölvað vesen sem Henri höndlar ekki einn. Hver vill vera læstur inni í kastala lengst í rassgati í skógi í Rússlandi, ná að flýja og þvælast um í leit að frelsi innan um snáka, birni og skógarmítla. Ekki ég, takk fyrir. Ég ætla sannarlega ekki að lesa bókina en ykkur er ÖLLUM boðið í kaffi og köku að T-12 á laugardaginn. Ég reikna með að vera heima!