Fjarðarpósturinn ætlar, í samvinnu við Hafnarfjarðarbæ og Jólaþorpið, að standa að beinni vefútsendingu sunnudaginn 2. desember. Útsendingin verður frá gamla apótekinu í Hafnarborg og mun meðal annars þekkt listafólk stíga á stokk, svo sem Bubbi Morthens, Guðrún Árný Karlsdóttir, Jón Jónsson og Friðrik Dór. Um 50 manns munu koma fram í þáttunum og IKEA sér um að mubla upp þrjú glæsileg og jólaleg svið fyrir útsendinguna.
„Þessi hugmynd kom upp fyrir bara nokkrum vikum síðan. Ég og Þorvarður Goði Valdimarsson hjá framleiðslufyrirtækinu Skjáskoti vildum bara láta vaða, því Hafnarfjörður skartar svo mörgu frambærilegu fólki á ýmsum sviðum. Þetta hefur ekki verið gert á þennan hátt hér á landi áður, einungis í sjónvarpi.“ segir Olga Björt Þórðardóttir ritstjóri Fjarðarpóstsins.
Olga Björt og hinn afar reyndi og fróði fjölmiðlamaður og Hafnfirðingur, Jónatan Garðarsson, verða þáttastjórnendur og dagskráin skiptist upp í nokkra 45 mínútna þætti yfir daginn. Vefþættirnir, sem byggðir verða upp á viðtölum, skemmtiinnslögum og tónlistarinnslögum, fara samtímis í útsendingu á „like“ síðum allra þátttakenda, Hafnarfjarðarbæjar og Fjarðarpóstsins og munu því margir Facebook notendur verða varir við hana.
Efni sem lifir áfram
Olga Björt segir að besta við þessa blöndu af samfélagsmiðlun og fjölmiðlun vera að efni þáttanna lifir áfram eftir útsendinguna. „Ofan á það verður hvert innslag klippt í sér einingu sem þátttakendur geta dreift að vild alla aðventuna. Við völdum 2. desember því þá er allur mánuðurinn eftir til að vekja athygli á efninu. Einnig verður unnið úr efninu í blaðaútgáfu Fjarðarpóstsins og við kappkostum að hafa þetta eins hafnfirskt og skemmtilegt og við getum.“