Rithöfundurinn Sjón sækir Gerðuberg heim á Bókakaffi í nóvember, í Menningarhúsinu í Gerðubergi í kvöld kl. 20, með skáldsöguna Mánastein í farteskinu. Kristján Guðjónsson menningarblaðamaður mun spjalla við Sjón um söguna og skáldskapinn, um bíó, býsnir og skugga-baldra. Hvernig er að skrifa sig inn í frostavetur? Hvernig leið almenningi í Reykjavík á fullveldisárinu?
Aldarafmæli fullveldisins hefur víða verið fagnað á árinu. Fáum hefur tekist jafn vel til að sviðsetja andrúmsloftið þetta örlagaríka ár í íslenskri sögu og Sjón í skáldsögunni Mánasteinn – Drengurinn sem aldrei var til frá árinu 2013.
Mánasteinn segir frá drengnum Mána Steini sem hefur unun af kvikmyndum og lifir sig inn í hverja einustu mynd sem sýnd er á hvíta tjaldinu. Þegar spænska veikin herjar á bæjarbúa í Reykjavík blandast heimar Mána Steins saman, ímyndun verður veruleiki og bilið milli lífs og dauða verður ógreinanlegt. Sjón hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir skáldsöguna árið 2013.
Bókakaffi í Gerðubergi er hluti kaffikvölda í Gerðubergi og haldið mánaðarlega yfir vetrarmánuðina, fjórða miðvikudagskvöld í mánuði. Það er vinsæll liður í viðburðadagskrá Borgarbókasafnsins.