fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
Fókus

Tæplega 10 ár í kraftlyftingum – 210 met og er bara rétt að byrja

Erla Dóra Magnúsdóttir
Þriðjudaginn 27. nóvember 2018 22:00

Júlían J.K. Jóhannsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Júlían J. K. Jóhannsson má með réttu kalla mann með mönnum. Hann er 25 ára Reykvíkingur sem á dögunum sló heimsmet í réttstöðulyftu á heimsmeistaramóti í kraftlyftingum í Halmstad í Svíþjóð og það í tvígang. Blaðamaður settist niður með Júlían og ræddi við hann um heimsmetið, kraftlyftingar og lífið.

Júlían er fæddur árið 1993. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hann stundað kraftlyftingar í tæpan áratug og hefur á þeim tíma hlotið, meðal annars, þrjá Íslandsmeistaratitla í kraftlyftingum og fjóra í réttstöðulyftu, tvo heimsmeistaratitla í unglingaflokki, titilinn Íþróttamaður ársins 2015 og svo hefur hann slegið 210 met og á í dag á þriðja tug af þeim metum. Árið 2018 má með sanni kalla hans besta ár til þessa, en á árinu hefur hann slegið öll sín persónulegu met sem og heimsmet, ekki einu sinni heldur tvisvar.

Júlían tók á móti blaðamanni á hlýlegu heimili sínu þar sem hann bauð upp á rjúkandi heitt kaffi úr mokkakönnu með vænni slettu af próteindrykk á meðan hvolpurinn Stormur fylgdist, af takmörkuðum áhuga, með frá gólfinu.

Fann köllunina

Júlían hefur verið stór og sterkur frá því að hann man eftir sér. Áður en hann lagði stund á kraftlyftingar þá æfði hann körfubolta. „Ég eignast þar mjög góða vini sem ég á enn í dag og fæ þar nasasjón af íþróttaiðkun,“ segir Júlían. Þrátt fyrir að hafa ákaflega gaman af körfubolta og að hafa notið þess góða anda sem ríkti í keppnisferðum og í búningsklefanum þá fór hugur Júlíans um 15 ára aldurinn að reika frá körfuboltanum. Hann fann á sér að hann hefði ekki þann áhuga sem þarf til að láta að sér kveða í körfunni og leitaði þá inn á líkamsræktarstöðvarnar þar sem hann fór að lyfta og fann um leið að lyftingar væru hans köllun og varð þá ekki aftur snúið. „Ég held það hafi allaf blundað í mér löngunin til að verða mjög stór og sterkur,“ segir hann. Kraftlyftingar heilluðu hann upp úr skónum og körfuboltinn varð að víkja.

Þótt kraftlyftingar teljist til einstaklingsíþrótta þá er enginn maður eyland. Það þarf teymi til að ná árangri og margir sem styðja við bakið á Júlían bæði á æfingum og í keppnum. „Maður gerir þetta með æfingarfélögunum sínum, fjölskyldu og vinum.“

Þegar Júlían byrjaði í kraftlyftingum leit hann einkum upp til Auðuns Jónssonar úr Breiðabliki. Auðunn Jónsson var einn fremsti kraftlyftingamaður Íslands um áratuga skeið og þekkir Júlían til fárra sem hafa keppt í íþróttinni jafn lengi.

Trúir á lyfjapróf

Aflraunakeppnir á borð Vestfjarðavíkinginn og Sterkasta mann Íslands þekkja landsmenn flestir vel og hefur Júlían íhugað að taka þátt í þeim, en hikar þó við því þar er engin krafa sett fram um að keppendur fari í lyfjapróf. „Ég er þeirrar skoðunar að íþróttamenn eigi að vera lyfjaprófaðir og tók ákvörðun snemma á mínum ferli um að ég vildi keppa í íþróttum þar sem slíkt tíðkast,“ segir Júlían en Kraftlyftingasamband Íslands er innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem fer eftir skilyrðum Alþjóða lyfjaeftirlitsstofnunarinnar, WADA, um lyfjaeftirlit og prófanir.

Júlían og hvolpurinn Stormur á æfingu

Allt er hægt

Ekki er hlaupið að því að gerast atvinnumaður í kraftlyftingum þó svo Júlían vilji gjarnan verða slíkur. Í dag þarf hann að sinna vinnu samhliða lyftingunum til að hafa í sig og sína. „Ég er samt rosalega þakklátur að geta stundað það sem mér þykir svona skemmtilegt og að fá tækifæri til að keppa á þessum stóru mótum.“ Hann hefur verið lánsamur og hlotið styrki frá Íþróttasambandinu, Kraftlyftingafélaginu Ármanni og Mjólkursamsölunni svo dæmi séu tekin og fyrir það er Júlían innilega þakklátur.

 

Hlaðborðin best

Til að ná árangri í kraftlyftingum þarf að gæta vel að mataræðinu til að hafa orku og úthald í lyftingarnar sem og að gæta þess að viðhalda vöðvamassa. Júlían reynir að borða á bilinu fjögur til fimm þúsund kaloríur á degi hverjum og reiknast honum til að hann neyti að meðaltali lítra af íslensku skyri á dag. Margir hefðu fljótt fengið leiða á að torga slíku magni þetta oft en Júlían finnst skyrið sitt alltaf bragðast jafn vel.

Ellen Ýr Jónsdóttir, sambýliskona Júlíans, er einnig afrekskona í kraftlyftingum og því væntanlega vel gætt að mataræðinu á heimilinu. Þegar farið er út að borða segist Júlían helst reyna að fara á hlaðborð enda yrði líklegast kostnaðarsamt að reyna að fullnægja orkuþörf þeirra hjúa með hefðbundnum matseðli. „Svo er maður orðinn vanur því að fá sér bara að borða áður en farið er eitthvert út. Gríp eina skyr og fer svo í afmæli eða eitthvað álíka.“

Talar ekki um fórnir

Aðspurður vill Júlían ekki kannast við að hafa þurft að færa miklar fórnir til að ná árangri í kraftlyftingum og hefur illan bifur á þeirri orðanotkun því merkingin verði neikvæð í þessu samhengi. Í rauninni sé ekki um eiginlega fórn að ræða. „Það felst ekki fórn í að stunda eitthvað sem maður elskar.“

Allt skipulag Júlíans tekur mið af því að æfingarnar komi fyrst og annað á eftir. „Lykillinn er að forgangsraða því sem maður vill mest, setja það ofar því sem maður vill núna,“ segir hann og það verður að játast að í þessu viðhorfi felst mikill speki sem væri ekki úr vegi að fleiri, hvort sem um íþróttaiðkun lífið sjálft er að ræða, tileinkuðu sér.

Þetta viðhorf Júlíans endurspeglast í því hvernig hann tekst á við þau mörgu verk sem hann sinnir í daglegu lífi. Líkt og áður segir, sinnir Júlían vinnu samhliða lyftingunum og í dag vinnur hann hlutastarf við meðferðarheimilið á Stuðlum og er jafnframt í háskólanámi í sagnfræði þar sem hann hefur lokið tveimur árum af þremur. Hann setur kraftlyftingarnar efst, því næst vinnuna og í kjölfarið háskólanámið. Ástríðan, lifibrauðið og námið.

Því er ljóst að Júlían er sérlega upptekinn maður. Þó kemur fyrir að hann fær að slaka á og þykir honum þá gott að skella sér í sund. Segir hann að þrátt fyrir að á Íslandi megi líta fögur fjöll, fossa og fleiri náttúruperlur þá séu það almenningssundlaugarnar okkar sem séu raunverulegu gullmolarnir og mælir hann hiklaust með þeim við ferðamenn.

Unglingur á þrítugsaldri

Flokkar í kraftlyftingum komu blaðamanni spánskt fyrir sjónir. Þar eru 14–18 ára strákar „drengir“ og 19–23 ára menn eru „unglingar“. Það eru því aðeins tvö ár síðan Júlían var unglingur innan kraftlyftinganna. Ástæðuna fyrir þessari undarlegu aldursskipan telur Júlían að megi rekja annars vegar til þess hversu langur líftími íþróttamanna er innan íþróttarinnar og hins vegar til aldursskiptingar á milli bandarískra skólastiga.

Þrátt fyrir að teljast til unglinga til 23 ára aldurs þá lendir Júlían stundum í því að vera talinn mun eldri en hann er. Þegar hann var 19 ára gamall setti hann Íslandsmet í unglingaflokki og af því tilefni var birt mynd af honum í fréttum sem sýndi hann í miðri hnébeygju, með 340 kíló á bakinu, og eðli málsins samkvæmt rauður í framan. Þá var skrifað í athugasemd við fréttina „Unglingur? Þessi gæi er fimmtugur.“ Hafði Júlían þó bara gaman af enda góð saga til að deila með öðrum.

Júlían heldur sig við kraftlyftingar frekar en aflraunir

Átti meira inni

Hans mesta afrek til þessa vann Júlían svo þann 10. nóvember þegar hann tvíbætti heimsmetið í réttstöðulyftu, fyrst með því að lyfta 398 kílóum og því næst 405 kílóum. Áður hafði Júlían náð að lyfta 400 kílóum á Evrópumóti í maí, en fékk það ekki staðfest vegna tæknigalla í hnébeygjulið keppninnar. Þágildandi heimsmet Bandaríkjamannsins Brads Gillingham var 397,5 kíló og ákvað Júlían því fyrst að reyna við 398 kíló og slá þar með heimsmetið, en þegar sú lyfta gekk vonum framar og hann orðinn heimsmetshafinn, þá fann hann að hann ætti meira inni og ákvað því að nýta þá tilraun sem eftir var í að gera gott um betur. Það hafði verið markmið hjá honum að komast upp fyrir 400 kíló og í samráði við þjálfara sinn ákvað Júlían að gera atlögu að 405 kílóum, en þar með gæti hann tryggt sér fjórða sæti á mótinu. „Þetta var magnað,“ segir Júlían um þá ótrúlegu tilfinningu sem greip hann þegar hann tók um stöngina og gerði sér grein fyrir að hann gæti rétt fyllilega úr sér og bætt sitt eigið met, aðeins skömmum tíma eftir að hann setti það.

Þótt Júlían reyni yfirleitt að æsa sig upp fyrir lyftur til að koma sér í gang hugsaði hann þó: „Jæja Júlían, nú verður þú að vera rólegur og vanda þig“, áhorfendur í salnum fögnuðu honum ákaft og hvöttu áfram og er Júlían minnisstæður þulurinn á keppninni, gamall gráhærður Svíi með þykkt yfirvaraskegg sem öskraði í hljóðnemann: „Koma svo HÚH“. Síðan brutust út mikil fagnaðarlæti þegar íslenski víkingurinn Júlían, reif upp heil 405 kílógrömm og bætti samtímis met Bandaríkjamannsins upp um 7,5 kíló.

 

Á traustum fótum

Það er deginum ljósara að Júlían er kominn til að vera í kraftlyftingum og hann stendur traustum fótum innan geirans, en hann stendur líklega oftast traustum fótum því hann er svo fótastór að hann notar hvorki meira né minna en skóstærð númer fimmtíu. „Ég hef aldrei búið við þann munað að þróa með mér einhvern skósmekk.“ Það eru ekki margar búðir sem bjóða upp á svo stóra skó, og þær búðir sem það gera hafa þá ekki í miklu úrvali. Júlían kaupir því helst skó í gegnum vefsíður eða að utan. Skósmekkurinn er því „það sem er í boði“. Fyrir hefur komið þegar hann falast eftir skóm í sinni stærð þá bjóði afgreiðslufólk honum skó sem jafnvel eru þremur stærðum minni en hann þarf og hann spurður hvort það gangi ekki bara. Afgreiðslufólkið er þá kannski óvant mönnum með jafngóðar undirstöður og Júlían hefur.

 

Þrátt fyrir tæplega áratuga reynslu af kraftlyftingum þá er Júlían aðeins búinn að keppa í tvö ár í fullorðinsflokki og árangur hans hingað til aðdáunarverður. Ekki er óalgengt í þessum bransa að ná sínum besta árangri eftir þrítugt og að sögn Júlíans þá voru flestir þeir sem hann atti kappi við á síðasta heimsmeistaramóti töluvert eldri en hann. Fyrirmyndir Júlíans, sem einu sinni virtust svo ósnertanlegar og fjarri honum, finnst honum nú færast honum sífellt nær, en Júlían er hvergi nærri hættur og ætlar sér langt. „Auðvitað veit maður ekki hvað verður, en ég stefni hærra. Ég er 25 ára núna og á mörg ár eftir.“ Á þessum orðum kveðjum við Júlían Jóhann Karl Jóhannsson, sterkan mann með langt og sterkt nafn, sem á langan og farsælan feril framundan. Hann er nefnilega bara rétt að byrja.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina
Fókus
Fyrir 2 dögum

Framkvæmdastjórinn í Paradís flytur sig um set

Framkvæmdastjórinn í Paradís flytur sig um set
Fókus
Fyrir 2 dögum

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur
Fókus
Fyrir 4 dögum

Birti mynd af nánast nöktum líkama eiginkonunnar – Netverjar í áfalli og segja ekki öruggt að skoða hana í vinnunni

Birti mynd af nánast nöktum líkama eiginkonunnar – Netverjar í áfalli og segja ekki öruggt að skoða hana í vinnunni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Grátt, svart og hvítt áberandi í endurnýjaðri eign í Reykjavík

Grátt, svart og hvítt áberandi í endurnýjaðri eign í Reykjavík