Karl Bjarni Guðmundsson tónlistarmaður, betur þekktur sem Kalli Bjarni, missti föður sinn og bróður með einungis fimm ára millibili. Báðir tóku þeir sitt eigið líf í kjölfar andlegra veikinda. Kalli Bjarni segir í samtali við DV að hann hafi ákveðið að opna sig um þessa sáru lífsreynslu í þeirri von að opna umræðu um kvíða og þunglyndi. Hann tjáði sig áður á Facebook og gaf DV leyfi til að vitna í þau skrif þá í þeirri von að það yrði til góðs og til að vekja athygli á andlegum veikindum.
Kalla Bjarna þekkja flestir. Hann varð stjarna á einni nóttu þegar hann fór með sigur af hólmi í fyrstu þáttaröðinni af Idol Stjörnuleit árið 2004. Líf hans hefur ekki alltaf verið dans á rósum en hann hefur áður tjáð sig opinskátt við fjölmiðla um erfiða æsku og unglingsár og baráttu við vímuefni. Síðustu mánuði hefur Kalla gengið allt í haginn og náð að snúa lífi sínu við. Í sumar eignaðist hann son með Önnu Valgerði Larsen. En Kalli telur nauðsynlegt að halda minningu föður og bróður á lofti, enn þá einmitt í þeirri von að það komi einnig öðrum að gagni að hann opni sig um sína erfiðustu lífsreynslu.
Karl Bjarni minnist bróður síns, Bastíans Grønli Guðmundssonar í einlægri færslu á Facebook þann 25. nóvember síðastliðinn. Bastían, sem ævinlega var kallaður Stian var aðeins 24 ára gamall þegar hann lést. Til stóð að hann ætti að heita Stian en þar sem það var bannað var hann skírður Bastían. Faðir þeirra, Guðmundur Aðalsteinn Sveinsson tók sitt eigið líf árið 2007 en fráfall hans var Stian afar þungbært. Stian og Guðmundur höfðu verið búsettir í Noregi en Kalli Bjarni á Íslandi.
„Í dag eru liðin 6 ár frá því að Stían litli bróðir minn tók sitt eigið líf en samt, þá er söknuðurinn alltaf jafn sár. Ég hélt í hendina á honum, þegar pabbi okkar dó á spítalanum, eftir að hafa reynt að taka sitt eigið líf og ég hvíslaði í eyrað hans að ég skildi vera til staðar fyrir hann af því pabbi væri farinn. En hann bara náði sér aldrei andlega aftur eftir að pabbi dó og ráfaði á tímabili um dimma dali.“
Stian hafði sem fyrr segir verið búsettur í Noregi en dvaldi um tíma hjá Kalla Bjarna á Íslandi.
„Ég reddaði handa honum vinnu i fiskvinnslu því hann vildi koma með mér á sjóinn en ég vildi að hann lærði fyrst aðeins handtökin áður en hann færi á sjó. Ég var sjálfur að róa stíft til að allt gengi upp. Stían var duglegur í vinnunni en samt skein alltaf í gegn hversu sárt hann saknaði pabba og leið oft illa,“ segir Kalli Bjarni. „Fyrir rest þá mætti hann illa vinnuna og sagðist sakna vina sinna í Noregi. Hann fór svo til Noregs aftur í kjölfarið.“
Það stóð alltaf til að Stian kæmi aftur til Íslands til að vinna með Kalla og stefndu þeir á að fara á sjóinn saman. En vanlíðanin var slík og á þeim tímapunkti sá Stian enga aðra leið en að taka eigið líf.
„Hann kom aldrei aftur,“ segir Kalli Bjarni. „Ég fór til hans til Noregs til að kveðja hann í síðasta skipti.“
Kalli Bjarni lýsir því hvernig bróður- og föðurmissirinn hefur haft mikil áhrif á líf hans. Sársaukinn var gríðarlegur enda var Kalli afar náinn bæði föður sínum og bróður.
„Ég kenndi sjálfum mér um að hafa brugðist litla bróður mínum fyrstu árin og hef burðast um með misjafnlega deyfðan óuppgerðann klump í maganum útaf þessu, fyrir utan allt hitt,“ segir Kalli en bætir við að bæði faðir hans og bróðir myndu miklu fremur vilja að sjá hann halda áfram að lifa lífinu í stað þess að dvelja í sorginni. En það hjálpi til að vinna á sorginni með því að tjá sig hana.
Kalli Bjarni og Anna Larsen eignuðust eins og áður segir son fyrr á árinu. Þegar kom að því að velja nafn á drenginn var valið auðvelt. Hann var skírður í höfuðið á bæði afa sínum og frænda. Kalli Bjarni segir að lokum:
„Þannig að minningin lifir áfram í hjartanu á þeim sem þekktu þá. Það er á hreinu að hann mun ekki skorta aðstoð að ofan ef þurfa þykir.“