fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Júlían heimsmethafi -„Það felst ekki fórn í að stunda eitthvað sem maður elskar“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Þriðjudaginn 27. nóvember 2018 14:00

Júlían og hvolpurinn Stormur á æfingu

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Júlían J. K. Jóhannsson má með réttu kalla mann með mönnum. Hann er 25 ára Reykvíkingur sem á dögunum sló heimsmet í réttstöðulyftu á heimsmeistaramóti í kraftlyftingum í Halmstad í Svíþjóð og það í tvígang. Blaðamaður settist niður með Júlían og ræddi við hann um heimsmetið, kraftlyftingar og lífið.

Meðfylgjandi er brot úr stærra viðtali sem birtist í nýjasta helgarblaði DV.

Átti meira inni

Hans mesta afrek til þessa vann Júlían svo þann 10. nóvember þegar hann tvíbætti heimsmetið í réttstöðulyftu, fyrst með því að lyfta 398 kílóum og því næst 405 kílóum. Áður hafði Júlían náð að lyfta 400 kílóum á Evrópumóti í maí, en fékk það ekki staðfest vegna tæknigalla í hnébeygjulið keppninnar. Þágildandi heimsmet Bandaríkjamannsins Brads Gillingham var 397,5 kíló og ákvað Júlían því fyrst að reyna við 398 kíló og slá þar með heimsmetið, en þegar sú lyfta gekk vonum framar og hann orðinn heimsmetshafinn, þá fann hann að hann ætti meira inni og ákvað því að nýta þá tilraun sem eftir var í að gera gott um betur. Það hafði verið markmið hjá honum að komast upp fyrir 400 kíló og í samráði við þjálfara sinn ákvað Júlían að gera atlögu að 405 kílóum, en þar með gæti hann tryggt sér fjórða sæti á mótinu. „Þetta var magnað,“ segir Júlían um þá ótrúlegu tilfinningu sem greip hann þegar hann tók um stöngina og gerði sér grein fyrir að hann gæti rétt fyllilega úr sér og bætt sitt eigið met, aðeins skömmum tíma eftir að hann setti það.

Þótt Júlían reyni yfirleitt að æsa sig upp fyrir lyftur til að koma sér í gang hugsaði hann þó: „Jæja Júlían, nú verður þú að vera rólegur og vanda þig“, áhorfendur í salnum fögnuðu honum ákaft og hvöttu áfram og er Júlían minnisstæður þulurinn á keppninni, gamall gráhærður Svíi með þykkt yfirvaraskegg sem öskraði í hljóðnemann: „Koma svo HÚH“. Síðan brutust út mikil fagnaðarlæti þegar íslenski víkingurinn Júlían, reif upp heil 405 kílógrömm og bætti samtímis met Bandaríkjamannsins um 7,5 kíló.

Talar ekki um fórnir

Aðspurður vill Júlían ekki kannast við að hafa þurft að færa miklar fórnir til að ná árangri í kraftlyftingum og hefur illan bifur á þeirri orðanotkun því merkingin verði neikvæð í þessu samhengi. Í rauninni sé ekki um eiginlega fórn að ræða. „Það felst ekki fórn í að stunda eitthvað sem maður elskar.“

Allt skipulag Júlíans tekur mið af því að æfingarnar komi fyrst og annað á eftir. „Lykillinn er að forgangsraða því sem maður vill mest, setja það ofar því sem maður vill núna,“ segir hann og það verður að játast að í þessu viðhorfi felst mikill speki sem væri ekki úr vegi að fleiri, hvort sem um íþróttaiðkun lífið sjálft er að ræða, tileinkuðu sér.

Þetta viðhorf Júlíans endurspeglast í því hvernig hann tekst á við þau mörgu verk sem hann sinnir í daglegu lífi. Líkt og áður segir, sinnir Júlían vinnu samhliða lyftingunum og í dag vinnur hann hlutastarf við meðferðarheimilið á Stuðlum og er jafnframt í háskólanámi í sagnfræði þar sem hann hefur lokið tveimur árum af þremur. Hann setur kraftlyftingarnar efst, því næst vinnuna og í kjölfarið háskólanámið. Ástríðan, lifibrauðið og námið.

Því er ljóst að Júlían er sérlega upptekinn maður. Þó kemur fyrir að hann fær að slaka á og þykir honum þá gott að skella sér í sund. Segir hann að þrátt fyrir að á Íslandi megi líta fögur fjöll, fossa og fleiri náttúruperlur þá séu það almenningssundlaugarnar okkar sem séu raunverulegu gullmolarnir og mælir hann hiklaust með þeim við ferðamenn.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sniglasúpan tryggði Einari Leif Gaddakylfuna

Sniglasúpan tryggði Einari Leif Gaddakylfuna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024