Júlían J. K. Jóhannsson má með réttu kalla mann með mönnum. Hann er 25 ára Reykvíkingur sem á dögunum sló heimsmet í réttstöðulyftu á heimsmeistaramóti í kraftlyftingum í Halmstad í Svíþjóð og það í tvígang. Blaðamaður settist niður með Júlían og ræddi við hann um heimsmetið, kraftlyftingar og lífið.
Meðfylgjandi er brot úr stærra viðtali sem birtist í nýjasta helgarblaði DV.
Júlían er fæddur árið 1993. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hann stundað kraftlyftingar í tæpan áratug og hefur á þeim tíma hlotið, meðal annars, þrjá Íslandsmeistaratitla í kraftlyftingum og fjóra í réttstöðulyftu, tvo heimsmeistaratitla í unglingaflokki, titilinn Íþróttamaður ársins 2015 og svo hefur hann slegið 210 met og á í dag á þriðja tug af þeim metum. Árið 2018 má með sanni kalla hans besta ár til þessa, en á árinu hefur hann slegið öll sín persónulegu met sem og heimsmet, ekki einu sinni heldur tvisvar.
Júlían tók á móti blaðamanni á hlýlegu heimili sínu þar sem hann bauð upp á rjúkandi heitt kaffi úr mokkakönnu með vænni slettu af próteindrykk á meðan hvolpurinn Stormur fylgdist, af takmörkuðum áhuga, með frá gólfinu.
Fann köllunina
Júlían hefur verið stór og sterkur frá því að hann man eftir sér. Áður en hann lagði stund á kraftlyftingar þá æfði hann körfubolta. „Ég eignast þar mjög góða vini sem ég á enn í dag og fæ þar nasasjón af íþróttaiðkun,“ segir Júlían. Þrátt fyrir að hafa ákaflega gaman af körfubolta og að hafa notið þess góða anda sem ríkti í keppnisferðum og í búningsklefanum þá fór hugur Júlíans um 15 ára aldurinn að reika frá körfuboltanum. Hann fann á sér að hann hefði ekki þann áhuga sem þarf til að láta að sér kveða í körfunni og leitaði þá inn á líkamsræktarstöðvarnar þar sem hann fór að lyfta og fann um leið að lyftingar væru hans köllun og varð þá ekki aftur snúið. „Ég held það hafi allaf blundað í mér löngunin til að verða mjög stór og sterkur,“ segir hann. Kraftlyftingar heilluðu hann upp úr skónum og körfuboltinn varð að víkja.
Þegar Júlían byrjaði í kraftlyftingum leit hann einkum upp til Auðuns Jónssonar úr Breiðabliki. Auðunn Jónsson var einn fremsti kraftlyftingamaður Íslands um áratuga skeið og þekkir Júlían til fárra sem hafa keppt í íþróttinni jafn lengi.
Trúir á lyfjapróf
Aflraunakeppnir á borð Vestfjarðavíkinginn og Sterkasta mann Íslands þekkja landsmenn flestir vel og hefur Júlían íhugað að taka þátt í þeim, en hikar þó við því þar er engin krafa sett fram um að keppendur fari í lyfjapróf. „Ég er þeirrar skoðunar að íþróttamenn eigi að vera lyfjaprófaðir og tók ákvörðun snemma á mínum ferli um að ég vildi keppa í íþróttum þar sem slíkt tíðkast,“ segir Júlían en Kraftlyftingasamband Íslands er innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem fer eftir skilyrðum Alþjóða lyfjaeftirlitsstofnunarinnar, WADA, um lyfjaeftirlit og prófanir.
Allt er hægt
Ekki er hlaupið að því að gerast atvinnumaður í kraftlyftingum þó svo Júlían vilji gjarnan verða slíkur. Í dag þarf hann að sinna vinnu samhliða lyftingunum til að hafa í sig og sína. „Ég er samt rosalega þakklátur að geta stundað það sem mér þykir svona skemmtilegt og að fá tækifæri til að keppa á þessum stóru mótum.“ Hann hefur verið lánsamur og hlotið styrki frá Íþróttasambandinu, Kraftlyftingafélaginu Ármanni og Mjólkursamsölunni svo dæmi séu tekin og fyrir það er Júlían innilega þakklátur.