Bókamessa í Bókmenntaborg er árlegur viðburður í nóvember í Hörpu. Þar sameina krafta sína Bókmenntaborgin Reykjavík og Félag íslenskra bókaútgefenda. Allar bækur útgefnar á árinu eru viðfang Bókmessu. Þar birtist „jólabókaflóðið‟ sem íslensk bókaútgáfa er þekkt fyrir víða um heim og helst í hendur við þá fallegu íslensku hefð að gefa bækur í jólagjöf. Bókamessa er helgina 24. og 25. nóvember og er opið milli kl. 11 og 17 báða daganna. Frítt inn á alla viðburði og allir velkomnir.
Fyrsta Bókamessa í Bókmenntaborg var haldin árið 2011 í Ráðhúsinu og Iðnó. Síðan þá hefur Bókamessa vaxið ár frá ári og er nú einn af stóru viðburðunum í bókmenntalífi borgarinnar.
Bókamessa leggur nú undir sig Flóa á jarðhæð Hörpu og salina Rímu A og B þar sem lífleg bókmenntadagskrá verður báða dagana. Börn eru sérstaklega boðin velkomin á Bókamessu og verða sögustundir fyrir börn á öllum aldri í Krakkahorni Sleipnis í Flóa. Eins og undanfarin ár verður einnig boðið upp á barna- og ungmennabókahlaðborð með sýnishornum af nýjum bókum sem bæði börn og fullorðnir geta smakkað á í notalegu lestrarumhverfi.
Á sýningarsvæðinu verða höfundar og útgefendur og margt um að vera á kynningarbásunum allan daginn. Hljóðbókaútgáfan Storytel leiðir okkur inn í heim hljóðbóka, höfundar ræða við gesti og afgreiða bækur, boðið verður upp á smakk úr matreiðslubókum, föndur og spennandi leiki. Höfundar veita áritanir og útgefendur veita góð ráð fyrir þá sem eru að leita að bókum til gjafa eða á sinn eigin óskalista.
Á Bókamessu koma saman bókaútgefendur, höfundar og lesendur og eiga saman helgi þar sem orðlistin er í öndvegi. Fjölbreytt og skemmtileg bókmenntadagskrá er í tengslum við Bókamessu og lesendur geta nælt sér í glóðvolgar bækur á góðu verði beint frá útgefenda.
Frítt er inn á alla dagskrárliði og nóg um að vera fyrir fólk á öllum aldri.