„Það hefur verið afskaplega gefandi að festa Takk daginn í sessi sem árlegan viðburð og það er gaman að geta unnið að því í samstarfi við viðskiptavini okkar að styðja við brýn málefni í okkar samfélagi,“ segir Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa markaða.
Takk dagur Fossa markaða er haldinn í fjórða sinn í dag. Þá renna allar þóknanatekjur vegna viðskipta dagsins til góðs málefnis, sem að þessu sinni er átakið Ég á bara eitt líf, sem stendur fyrir öflugri forvarnarfræðslu um skaðsemi misnotkunar á lyfjum og öðrum fíkniefnum. Með milligöngu átaksins rennur helmingur söfnunarfjárins jafnframt til Bergsins, móttöku- og stuðningsseturs fyrir ungt fólk.
Auk Fossa markaða taka Kauphöllin, Nasdaq Iceland, og uppgjörsfyrirtækið T plús þátt í deginum með því að fella niður öll gjöld af viðskiptum Fossa, sem í staðinn renna til söfnunarinnar.
Sporna við ótímabærum dauðsföllum
Í fyrra söfnuðust um 6,7 milljónir króna sem runnu til Krafts, stuðningsfélags fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein. Árið áður naut Barnaspítali Hringsins góðs af afrakstrinum.
„Takk deginum hefur verið vel tekið og gleður okkur mjög að geta staldrað aðeins við og lagt okkar á vogarskálar þeirra sem eru að vinna að mjög mikilvægum málum þar sem allur stuðningur getur skipt sköpum. Við höfum kynnt okkur starfsemi átaksins Ég á bara eitt líf og einnig fyrirætlanir Bergsins og teljum það skipta máli að aðstoða við að koma þessum verkefnum áfram svo hægt sé að bregðast við aðsteðjandi vanda ungmenna á skjótvirkan og áhrifaríkan hátt. Þá viljum við þakka sérstaklega þeim viðskiptavinum okkar sem leggja hönd á plóg í dag sem og Kauphöllinni og T plús fyrir þeirra framlag,“ segir Haraldur.
Sláandi tölur
Aðgerða er þörf því samkvæmt upplýsingum frá Landlækni hafði embættið um mitt þetta ár rannsakað yfir 40 dauðsföll þar sem grunur lék á að lyf hafi komið við sögu. Í fyrra var heildarfjöldi slíkra dauðsfalla 32. Fyrstu skrefin í að bregðast við þessari óheillaþróun eru að opna umræðuna, en markmið þjóðarátaksins Ég á bara eitt líf eru að sporna við og draga úr misnotkun fíkniefna með áherslu á lyf og auka þekkingu almennings á eðli og umfangi vandans. Þá er mikilvægt að huga að fleirum og betri meðferðarúrræðum fyrir ungt fólk í vanda.
Upplýsingar um starfsemi sjóðsins Ég á bara eitt líf er að finna á heimasíðu átaksins.
Frekari upplýsingar um starfsemi Fossa markaða eru á vef fyrirtækisins.