Styrktartónleikar fyrir Söndru Lind Birgisdóttur, sex mánaða, fara fram á Hard Rock á morgun, miðvikudag, kl. 20.
Stuðlabandið, Stebbi Hilmars, Páll Rózinkrans, Ívar Daníelsson, Hlynur Ben, Úlfur úlfur eru á meðal þeirra sem koma fram og mun allur ágóði renna til Söndru Lindar.
Alma Dögg Árnadóttir frænka litlu stúlkunnar lýsti sjúkdómnum og næstu skrefum í viðtali hjá Huldu og Loga í síðdegisþættinum á K100.
Sandra Lind fæddist 3. maí síðastliðinn og fyrir þremur vikum greindist hún með beinasjúkdóminn Osteopetrosis, en hún er þriðja tilvikið á 48 árum sem greinist með sjúkdóminn hér á landi. Sjúkdómurinn veldur því að beinin stækka ekki eðlilega, eru viðkvæm og eru fjölmörg bein í líkama hennar brotin. Beinin vaxa þannig að þau þykkna í stað þess að hún lengist og hún hefur lítinn beinmerg í beinunum vegna þess að beinin eru þykk og næstum heil í gegn. Það veldur því að beinmergurinn getur ekki framleitt blóð eins og hann á að gera útskýrir Alma Dögg, auk þess sem hún er reglulega hjá talmeinafræðingi, háls-, nef-, eyrna- og augnlækni, þar sem beinin eru óeðlilega stór og því farin að þrýsta á taugar og æðar.
Sandra Lind þarf að fara til Svíþjóðar í beinmergsskipti um miðjan desember ásamt foreldrum sínum, þeim Birgi Erni Birgissyni og Svanhildi Karen Júlíusdóttur.
Ljóst er að þau verða í nokkra mánuði í Svíþjóð með tilheyrandi álagi og kostnaði og vildu vinir og fjölskylda leggja þeim lið með þessum hætti.
Einnig má leggja beint inn á styrktarreikning sem hefur verið stofnaður:
0130-05-020001, Kt. 030518-2250.
Husta má á viðtalið við Ölmu Dögg hér fyrir neðan.