Hinn margrómaði Jólabasar Hringsins verður haldinn á Grand Hótel Reykjavík á sunnudag kl. 13.
Basarinn nýtur mikilla vinsælda enda úrvalið fjölbreytt og glæsilegt. Síðustu ár hefur myndast örtröð þegar húsið opnar en stemningin skemmtileg. Fyrir marga er Jólabasar Hringsins ómissandi í aðdraganda jóla.
Á basarnum er boðin til sölu handavinna Hringskvenna, mest jólavara en einnig margt fleira. Svo má ekki gleyma að borðin munu svigna undan alls konar bakkelsi.
Allt fé sem Hringskonur safna, gjafir og áheit rennur óskipt í Barnaspítalasjóð Hringsins. Allt starf er unnið í sjálfboðavinnu, yfirbygging félagsins er engin og félagið rekið með félagsgjöldum Hringskvenna sjálfra.
Það sem af er þessu ári hefur Hringurinn veitt styrki upp á 29 milljónir króna, sem lesa má um hér.