Söngkonan Ragga Gröndal og barnabókahöfundurinn Bergrún Íris Sævarsdóttir fögnuðu nýlega útgáfu tónlistarævintýrisins Næturdýranna í versluninni Bíum bíum. Barnabókin og textarnir eru eftir Bergrúnu og Ragga semur tónlistina sem fylgir með bókinni.
Útgáfuboðið var hið glæsilegasta og fullt út úr dyrum af hamingjusömum börnum sem mörg hver mættu í náttfötum eða mjúkum heilgöllum. Sandra Karen Káradóttir tók myndir af stemningunni.
Ragga tók þrjú lög úr Næturdýrunum ásamt dásamlegum barnakór, meðal annars Kóngulóarlagið sem notið hefur vinsælda meðal leikskólabarna frá því lagið var fyrst flutt á Barnamenningarhátíð í Hörpu á árinu.
Mikið var um pastellitaðar dýrðir í boðinu en á boðstólum voru regnbogamöffins, einhyrningagos og sælgæti í öllum litum regnbogans.