fbpx
Fimmtudagur 23.janúar 2025
Fókus

Leikdómur: Tvískinnungur – „Oft grimm fegurð í textanum og myndhverfingarnar verða sterkar, átakanlegar og óþægilegar“

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 13. nóvember 2018 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku og menningardeild Háskóla Íslands,  skrifar í Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, leikdóm um leiksýningu Borgarleikhússins, Tvískinnungur, sem frumsýnd var síðastliðinn föstudag.

Tvískinnungur er fyrsta leikverk Jóns Magnúsar Arnarssonar en hann er langt frá því að vera byrjandi sem sviðslistamaður og skáld. Jón Magnús hefur lengi verið þekktur sem rappari og gjörningalistamaður, höfundur flóknari og dýpri texta en menn eiga að venjast á þeirri senu. Og nú liggur fyrir hans fyrsta leikverk.

Sviðið

Á miðju litla sviðinu rís undarleg bygging úr köðlum, breið og margþætt efst og mjókkar niður. Hún minnir á grófgerðan (kóngulóar)vef eða kannski net eða kannski búr eða spíral og víst er það illur spírall sem lýst er í verkinu. Kaðalverkið er nýtt til hins ítrasta í verkinu og bætir þannig verulega við rými litla sviðsins og möguleika. Litla baksviðið og svalirnar eru sömuleiðis hugvitsamlega notuð sem leikrými og leikmunageymslur. Það er Sigríður Sunna Reynisdóttir sem gerir leikmynd og tilþrifamikla búninga. Sýningin er lýst af Þórði Orra Péturssyni og lýsingin leikur stórt hlutverk ásamt tónlist og hljóðmynd sem byggja saman upp þá myrku og háskalegu stemningu sem einkennir mikinn hluta verksins. Það er Ólafur Egilsson sem leikstýrir og á lof skilið fyrir enn eina hugmyndaríka og kraftmikla sýningu á verki efnilegs nýliða.

Sex hlutverk

Í leikritinu eru sex hlutverk: Ofurhetjurnar Iron man og Black Widow, leikari og leikkona, sviðsmaður 1 og sviðsmaður 2. Öll hlutverkin eru leikin af tveimur leikurum: Þuríði Blæ Jóhannsdóttur og Haraldi Ara Stefánssyni.

Í upphafi verksins kemur Iron man „fljúgandi“ niður kaðlaverkið undir stormandi bíómúsikk og Svarta ekkjan, erkióvinur hans, er ekki langt undan. Þetta er ungt fólk í grímupartýi, þau laðast hvort að öðru, fara heim saman og í hönd fer ástarbrími, fullur af gleði, hrifningu og ást, þrátt fyrir meintan fjandskap.

Þó ótrúlegt megi virðast eru leikarar á bak við ofurhetjurnar Iron man og Black Widow, í þessu tilviki eru hetjurnar leiknar af leikurum sem sjálf eru par og rífast hroðalega baksviðs en hið ljúfa hlutverk ástfanginna ofurhetja er skemmtilegra, fullt af leikgleði og narsissískum speglunum og þau reyna að hverfa aftur inn í veröld þeirrar ástar þegar sambandið er orðið eitrinu að bráð. Langt, dramatískt og sjúkt samband þeirra fer allan skalann í persónulegum skipbrotum í kjölfar eiturlyfjaneyslu og rugls sem sviptir þau ráði og rænu til skiptis og saman þangað til þau hafa sært hvort annað svo djúpum sárum að ekkert er í stöðunni nema forða sér og reyna að tjasla sér einhvern veginn saman aftur. Þetta er saga sem hefur oft verið sögð en verður samt aldrei sögð til fulls eða eins og hún er, í allri sinni kvöl og mannlægingu.

Texti Jóns Magnúsar fer nú samt langt með það. Það er oft grimm fegurð í textanum og myndhverfingarnar verða sterkar, átakanlegar og óþægilegar. Leikritið er mikið brotið upp og undirbygging persóna og innri gerð hringiðunnar verður ekki skýr. Jón Magnús er ennþá fyrst og fremst ljóðskáld og á það til að hrúga saman myndhverfingum í ofgnótt þar sem myndirnar skyggja hver á aðra. Stundum verða þær þó magnaðar eins og þegar búið er að rífast svo mikið að klukkan á veggnum lekur niður eins og verk eftir Salvator Dalí og árurnar víbra af þreytu og reiði.

Sviðsmenn

Þuríður Blær og Haraldur Ari búa til flottar persónur í öllum þessum hlutverkum. Þau eru bæði ung, sterk og glæsileg og nota kaðlana stundum á glannalegan hátt, velta sér í þeim, hanga utan á þeim og nota líkamana af mikilli fimi en sviðshreyfingar voru í umsjá Katrínar Ingvadóttur.  Þuríður Blær er mjög svöl í hlutverki Svörtu ekkjunnar og hún túlkar hina brotnu persónu leikkonunnar mjög vel, ofsaköstin, stjórnlausa reiðina og særindin en líka skömmina sem hleðst upp. Þuríður Blær er leikkona af guðs náð og veigrar sér ekkert við því að beita líkamanum í gróteskum senum. Hún var samt hvað best í hlutverki hins jarðbundna og nördalega sviðsmanns með ótrúlega sýrt ímyndunarafl.

Haraldur Ari var svolítið stífur í byrjun en náði sér á strik og túlkaði hið tilfinningaríka og skaddaða karlhlutverk bæði af blíðu og grimmd en hefði kannski mátt gefa meira í mótleikinn við Þuríði Blæ, til dæmis í lokasenunni.

Þau Þuríður Blær leika svo  þriðja parið, tvo sviðsmenn sem slúðra um leikaraparið, gera athugasemdir við „leikritið þeirra“ sem heyrist um allt hús og leika líka hlutverk gagnrýnenda eða fjórða veggjarins og tengja ástarsögu þeirra við Rómeó og Júlíu sem í þeirra útgáfu verður æ skrautlegri saga og æ gróteskari og fyndnari með hverri útgáfu og skemmti áhorfendum vel sem hefði verið Shakespeare að skapi.

Greinin birtist fyrst í Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Eiginmaður Bonnie Blue reiður eftir að hún svaf hjá þúsund mönnum – „Við vorkennum honum öll“

Eiginmaður Bonnie Blue reiður eftir að hún svaf hjá þúsund mönnum – „Við vorkennum honum öll“
Fókus
Í gær

Ótrúleg breyting á leikaranum: „Ég er á hápunktinum núna“ – Svona lítur hann út í dag

Ótrúleg breyting á leikaranum: „Ég er á hápunktinum núna“ – Svona lítur hann út í dag
Fókus
Fyrir 2 dögum

Ísraelsmenn saka VÆB um að hafa stolið þekktu lagi

Ísraelsmenn saka VÆB um að hafa stolið þekktu lagi
Fókus
Fyrir 2 dögum

Stórum sprengjum varpað um hertogahjónin í óvæntri afhjúpun Vanity Fair – Kölluð illmennin í hverfinu af nágrönnum sínum

Stórum sprengjum varpað um hertogahjónin í óvæntri afhjúpun Vanity Fair – Kölluð illmennin í hverfinu af nágrönnum sínum
Fókus
Fyrir 3 dögum

Tímamót hjá Helga Ómars – „Af einhverjum óútskýranlegum ástæðum er það rétt“

Tímamót hjá Helga Ómars – „Af einhverjum óútskýranlegum ástæðum er það rétt“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Hera Björk varð fyrir hatrammri aðför: „Þetta var í hundraðatali og endaði í þúsundatali og var augljóslega skipulagt“

Hera Björk varð fyrir hatrammri aðför: „Þetta var í hundraðatali og endaði í þúsundatali og var augljóslega skipulagt“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hannes Hólmsteinn opnar sig um sambúðina í Brasilíu – 47 ára aldursmunur

Hannes Hólmsteinn opnar sig um sambúðina í Brasilíu – 47 ára aldursmunur
Fókus
Fyrir 4 dögum

Fékk þær erfiðu fréttir að hann yrði líklega ófrjór eftir meðferðina – „Við fengum einn mánuð til að reyna“

Fékk þær erfiðu fréttir að hann yrði líklega ófrjór eftir meðferðina – „Við fengum einn mánuð til að reyna“