Jóladagatal RÚV í ár verður Hvar er Völundur?. Um er að ræða endursýningu á 22 ára gömlu jóladagatali sem Gunnar Helgason og Felix Bergsson gerðu á sínum tíma. Jóladagatalið er fastur liður í jólaundirbúningi íslenskra barna frá því hefðin var tekin upp af Skandinavískum sið árið 1988.
Hvar er Völundur? var fyrst sýnt árið 1996 og er úr smiðju Þorvaldar Þorsteinssonar.
Spurt er á Facebooksíðunni Jóladagatal RÚV: „Fyrir 22 árum gerðu Gunni og Félix jóladagatal sem nefnist Hvar er völundur? Það verður skjánum 1. Desember – 24. Desember 2018. Eru ekki allir pepp í það?“
Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa og þegar fréttin var skrifuð höfðu tugir deilt og lýst ánægju sinni sem framtakið.
Samkvæmt vef RÚV verður fyrsti þáttur sýndur þann 1. desember kl. 18:01.
Fyrir þá sem vilja forskot á sæluna þá er Hvar er Völundur? nú þegar aðgengilegt á vef KrakkaRÚV. Var það tilkynnt á Facebooksíðu RÚV þann 19. desember 2016 að um sé að ræða með vinsælli jóladagatölum sem sýnd hafi verið á RÚV og það sé gert aðgengilegt á vefnum vegna mikillar eftirspurnar.