Ingi Bauer og Stefán Atli hafa sent frá sér 45 myndbandsblogg eða svokölluð VLOG.
Í þessum myndbandsbloggum hafa þeir félagar meðal annars sýnt hvernig Ingi bjó til taktinn fyrir NEINEI, spilað á stóra sviðinu á þjóðhátíð, DJ-að með Herra Hnetusmjör á Benidorm, keypt 500.000 kr myndavél, flogið til Vestmannaeyja bara til þess að kaupa páskaegg, farið í snjósleðaferð á Langjökli, kveikt í jólageit IKEA og fengið JóaPé og Króla með sér í lið.
Þeir félagar eru með yfir 8200 áskrifendur á Youtube rásinni sinni og fer fjöldi áskrifenda ört vaxandi. Ásamt því að senda frá sér myndbandsblogg spila þeir tölvuleikinn FORTNITE alla fimmtudaga og fá oft til sín góða gesti.
Í nýjasta ævintýri félagana fóru þeir með myndskreytta köku til Herra Hnetusmjörs í tilefni af því að lagið Upp til Hópa sem hann gerði með Inga Bauer fékk milljón spilanir.
Lagið Upp til Hópa er af plötunni KBE kynnir: Hetjan úr hverfinu og var fyrsta smáskífan sem kom út af plötunni sem er samtals komin með yfir 2 milljónir spilana.
Ásamt því að gæða sér á kökunni fara þeir að rökræða um hvort Stefán megi eiga PS4 derhúfu, Hnetusmjör ýtir við Stefáni og Ingi skoðar KBE bílinn!