fbpx
Mánudagur 06.janúar 2025
Fókus

Spíra mánaðarins: Embla Wigum – ,,Mikilvægt að hafa eitthvað sem er bara þitt sem þú getur skapað“

Babl.is
Mánudaginn 12. nóvember 2018 12:00

Mynd: Hinrik Aron Hilmarsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Förðun rétt eins og annað listform hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum með tilkomu internetsins. Veraldarvefurinn gefur ekki bara fleiri listamönnum tækifæri til að koma sér á framfæri heldur hefur hann einnig rutt veginn fyrir nýja sköpun til að eiga sér stað. Embla Wigum er 19 ára förðunarfræðingur, sem hefur verið að vekja mikla athygli á Instagram. Embla útskrifaðist fyrir rúmu ári síðan úr Reykjavík Makeup School, hún stundar einnig nám við Menntaskólann við Hamrahlíð.

Hvenær gerðir þú þér grein fyrir því að þú hafðir áhuga á förðun?

,,Ég hef verið með áhuga á förðun lengi en það mætti segja að áhuginn hafi virkilega blómstrað þegar ég var 15 ára, þá fór ég að taka þessu af meiri alvöru. Það var samt ekki fyrr en ég byrjaði í Makeup skólanum að ég byrjaði að líta á þetta sem framtíðaratvinnugrein frekar en bara áhugamál. Ég fékk miklu meira sjálfstraust til að gera skapandi og óhefðbundna hluti eins og ég er að gera núna.“

Hvað lærðir þú helst í náminu?

,,Það sem ég held ég hafi helst lært í náminu er tækni, að nota rétta tækni við mismunandi verkefni skiptir rosalega miklu máli. Það skiptir líka máli að læra að nota réttar vörur til þess að fá niðurstöðurnar sem þú vilt. Það myndast líka ákveðin tengsl innan bransans og félagslegi þátturinn að fá að deila áhugamálinu þínu í fagmannlegu umhverfi með fullt af fólki  er líka frábær tilfinning. “

Hefði það sem þú ert að gera í dag verið hægt fyrir 20 árum?

,,Ég er ekki alveg viss, samfélagsmiðlar breyttu því gjörsamlega hvernig förðunarheimurinn virkaði. Það sem ég er að gera er til dæmis ekki förðun sem þú ferð úr húsi með. Fyrir 20 árum síðan var ábyggilega miklu erfiðara að gera frumlega og skapandi förðun og það er miklu léttara í dag að afla sér upplýsinga um þetta. Ég var mjög dugleg að afla mér upplýsinga og skoða kennslumyndbönd á YouTube um förðun löngu áður en ég ákvað að gera þetta af alvöru. Markaðurinn fyrir þetta hefur aukist og samfélagsmiðlar hafa skapað atvinnumarkað úr þessu fyrir fullt af fólki sem hefði aldrei getað gert þetta.“

,,Ef það væri ekki svona mikil samkeppni væri ekki jafn mikill metnaður fyrir því að verða betri“

Embla segir að tækni skipti miklu máli en að það sé erfitt að standa út án þess að vera skapandi, samkeppnin er grimm. ,,Með meiri aðgang að kennslumyndböndunum og förðunarskólum verður þú að leggja svo mikið upp úr því að standa út, þetta er mikil vinna en þetta er þannig með flesta hluti í lífinu, sá sem vinnur harðast hann kemst oftast lengst.“ Þar sem förðunarlist er tiltölulega ný af nálinni segir Embla að viðhorfið sé enn þá að þetta sé ekki alvöru list. ,,Eldra fólk lítur á þetta eins og ég sé bara eitthvað heima að mála mig allan daginn en þetta er svo miklu meira en það“.  Samfélagsmiðlar eru notaðir til að koma sér á framfæri í förðun og segir Embla að ,,margir eru með slæmt viðhorf gagnvart starfsgreinum sem tengjast samfélagsmiðlum á einhvern hátt og líta bara á þetta sem eitthvað trend sem mun deyja út þrátt fyrir að þær séu að blómstra núna“.

Embla segir förðunarbransann alls ekki vera kenndan við annað kynið og að margir af færustu förðunarfræðingum heims séu karlmenn. ,,Ég held að þetta sé að aukast núna þar sem strákar eru að sjá aðra stráka vera að þessu og fordómarnir eru að fara minnkandi.“ Embla segir að þetta sé hægt og rólega að breytast hérna á Íslandi og hún sé að sjá fleiri karlmenn farðaða á almannafæri og vonar að markaðurinn fyrir vörur fyrir karlmenn fari líka að aukast.

,,Ég kem frá mjög listrænni fjölskyldu, ég og bróðir minn höfum bæði alltaf verið í annaðhvort tónlistarnámi og höfum alltaf verið að mála eða teikna“

Aðspurð um framtíðina segir Embla ,,Það er hægt að gera allskonar við förðunarmenntun hérna á Íslandi, þú getur verið starfandi heima og tekið að þér pantanir þangað, unnið með ljósmyndurum, leikstjórum, farðað fyrir tónlistarmyndbönd og í leikhúsum. Það er hægt að gera fullt af mismunandi spennandi hlutum en það sem mig langar helst að prófa mig meira áfram í núna er svokölluð ,,special effects“ förðun fyrir bíómyndir og fleira.“

Embla hefur verið að taka að sér eiginlega öll verkefni sem bjóðast og hefur verið að vinna með WagTail sem er íslenskt fatamerki og hönnum. Hún hefur líka verið að vinna mikið með ljósmyndurum sem eru að safna að sér verkefnum fyrir meðal annars ljósmyndaskólann. ,,Eitt skemmtilegasta verkefni sem ég fékk var þegar ég fékk algjört listrænt frelsi og einu skilyrðin voru að þemað þyrfti að vera rautt. Ég tók bara fullt af varalitum og skellti á kinnarnar á módelinu og þetta kom ógeðslega vel út og var mjög skemmtilegt.“

,,Oft þegar ég hef verið að vinna verkefni með til dæmis ljósmyndurum ertu bara beðinn um að gera eitthvað ákveðið og þú kannt það kannski ekki alveg en þú lærir það bara á leiðinni, þrátt fyrir að það hljómi smá stressandi þá hefur þetta gefið mér helling af reynslu og endar samt alltaf mjög skemmtilega. Þú veist ekkert alltaf hvernig aðstæðum þú ert að fara lenda í og þarft að læra að aðlaga þig.“

,,Ég held að það sé mjög mikilvægt og gaman fyrir alla að hafa eitthvað svona sem er bara þitt sem þú getur skapað, ég held að það þroski mann mjög mikið. Oft ef ég hef átt erfiðan dag eða eitthvað getur verið mjög læknandi að setjast bara niður og mála eitthvað á mig, það getur verið ógeðslega ljótt eða ógeðslega fallegt fer allt bara eftir því hvernig skapi ég er í. Þetta á við um alla list held ég og það getur fylgt því mikil tilfinningaleg útrás að skapa eitthvað.“

,,Öll sköpun kemur einhvern veginn frá sama stað en það er bara mismunandi hvernig fólk skilar henni frá sér.“

Embla æfði á píanó í fjögur ár, gítar í tvö ár og var svo að æfa á þverflautu og söng bæði í eitt ár. ,,Ég held að það sé mikið samspil milli allrar listar, krafturinn bak við sköpunina er svo mikill og það er ótrúleg tilfinning.“

Embla stundaði líka mikið af myndlist og teikningu en segir að það þurfi ekkert endilega að vera góður að teikna til þess að geta verið góður förðunarlistamaður. ,,Það eru margir sem ég þekki sem eru bara alls ekki góðir að teikna á blað en eru svo bara ógeðslega góðir að mála sig. Þú færð kannski pínu forskot varðandi fínhreyfingar en það er alltaf hægt að læra. Ég held að ef þörfin til að skapa eitthvað er til staðar þá geta allir orðið góðir í þessu.“

Hægt er að sjá verk Emblu hér.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fer í gegnum síma eiginmannsins á hverju kvöldi og skammast sín ekkert fyrir það

Fer í gegnum síma eiginmannsins á hverju kvöldi og skammast sín ekkert fyrir það
Fókus
Fyrir 2 dögum

Boða grundvallarbreytingar á Söngvakeppninni – Ekkert einvígi og alþjóðleg dómnefnd

Boða grundvallarbreytingar á Söngvakeppninni – Ekkert einvígi og alþjóðleg dómnefnd
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að „flensubomban“ geti gert kraftaverk í veikindum – Svona er uppskriftin

Segir að „flensubomban“ geti gert kraftaverk í veikindum – Svona er uppskriftin
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Það er gaman að sjá þessa konu við hliðina á honum, sem er styrkurinn hans og ýtir honum út fyrir þægindarammann“

„Það er gaman að sjá þessa konu við hliðina á honum, sem er styrkurinn hans og ýtir honum út fyrir þægindarammann“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Vinsælustu heyrnartólin á skrifstofuna 2024

Vinsælustu heyrnartólin á skrifstofuna 2024
Fókus
Fyrir 5 dögum

Málin sem vöktu mesta athygli á árinu á Fókus – Afmælisferð sem breyttist í martröð, strákarifrildi og hættur Tenerife

Málin sem vöktu mesta athygli á árinu á Fókus – Afmælisferð sem breyttist í martröð, strákarifrildi og hættur Tenerife