Íslenski sviðslistahópurinn Marble Crowd sýnir verkið Moving Mountains In Three Essays á stóra sviði Þjóðleikhússins þann 14. nóvember, sem hluta af fjölbreytilegri og framsækinni dagskrá sviðslistahátíðarinnar Everybody’s Spectacular.
Verkið var frumsýnt í Kampnagel leikhúsinu í Hamborg í mars á síðasta ári og fjallar um hóp listamanna sem ætla sér að flytja fjall og er sagan sögð af fimm höfundum í enn fleiri útgáfum.
Aðeins er um þessa einu sýningu að ræða en verkið hlaut góðar móttökur í Þýskalandi og var tilnefnt til gagnrýnendaverðlauna hins kunna þýska Tanz Magazin fyrir uppfærslu ársins í Evrópu með sérstakri umfjöllun um hópinn.
Aðstandendur sýningarinnar eru Gunnar Karel Másson, Katrín Gunnarsdóttir, Kristinn Guðmundsson, Saga Sigurðardóttir, Sigurður Arent Jónsson, Tinna Ottesen og Védís Kjartansdóttir.
Verkefnið er styrkt af Kulturstiftung des Bundes og Nordisk kulturfond og unnið í samvinnu við Reykjavík Dance Festival, Bora Bora Árósum, Norðurlandahúsið í Færeyjum & Decameron Festival.