Ólafur Darri Ólafsson fer með aðalhlutverkið í Ráðherranum, nýrri þáttaröð sem verður tekin upp á næsta ári. Þar leikur Ólafur Darri óhefðbundinn stjórnmálamann. Þáttaröðin segir frá því hvernig hann verður forsætisráðherra Íslands og hvernig ákvarðanir hans verða sífellt óvenjulegri eftir að hann tekur við embætti. Sagafilm framleiðir þættina sem hafa verið í þróun í nokkur ár.
,,Ég hlakka mikið til samstarfsins við leikstjórana og finnst frábært að vinna með handritshöfundunum. Þegar ég las verkið, þá heillaðist ég alveg upp úr skónum. Ég hef leikið stjórnmálamenn áður en þetta hlutverk verður mikil áskorun.“ segir Ólafur Darri um verkefnið.
Nanna Kristín Magnúsdóttir og Arnór Pálmi Arnarson leikstýra þáttaröðinni í sameiningu en þau hafa unnið mikið við kvikmyndagerð síðustu ár. Arnór Pálmi hefur meðal annars hlotið Edduverðlaunin fyrir gamanseríuna Ligeglad og árið 2017 vann Nanna Kristín verðlaun fyrir stuttmyndina Ungar.
,,Við Nanna höfum unnið mikið saman síðustu ár en þetta er í fyrsta sinn sem við leikstýrum verkefni saman. Þegar við lásum handritin þá vorum við eiginlega seld. Það er frábært að fá Ólaf Darra í hlutverk forsætisráðherra. Þetta er rosalega stórt hlutverk og mun Ólafur Darri setja sterkan svip sinn á persónu forsætisráðherrans. Það eru fáir leikarar sem eigna sér hlutverk jafnvel og Darri.“ segir Arnór, annar leikstjóranna.
,,Undirbúningur Ráðherrans hefur verið skemmtilegt sköpunarferli og ég er afar spennt fyrir framhaldinu. Ég og Arnór erum ólíkir leikstjórar en myndum traust teymi“ segir Nanna Kristín um verkefnið og leikstjórasamstarfið.
,,Við Ólafur Darri höfum unnið alloft saman, leikið hvort á móti öðru bæði í kvikmyndum og leikhúsi. Hann lék aðalhlutverk í stuttmynd minni UNGAR (CUBS) þar sem samstarf okkar sem leikstjóri og leikari var sérlega gott og reyndist farsælt“ bætir Nanna Kristín við.
Handritaskrif eru í höndum Birkis Blæs Ingólfssonar, Bjargar Magnúsdóttur og Jónasar Margeirs Ingólfssonar. Tökur hefjast næsta vor og verður sögusviðið Reykjavík. RÚV hefur tryggt sér sýningarréttinn á þáttaröðinni, sem hefur nú þegar verið forseld til allra Norðurlandanna.
Um Sagafilm
Sagafilm er stærsta framleiðslufyrirtæki landsins á sviði kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerðar.
Sagafilm á sér 40 ára sögu í framleiðslu sjónvarpsefnis í öllum flokkum og hefur framleitt efni á borð við Stellu Blómkvist, Rétt, Pressu, Vaktaseríurnar, Out of Thin Air, Show of Shows, Bjarnfreðarson og Kalda slóð. Af nýjustu verkefnum Sagafilm má nefna fjölskyldumyndina og sjónvarpsþættina Víti í Vestmannaeyjum og teiknimyndina Lói – Þú flýgur aldrei einn. Þann 18. nóvember næstkomandi mun svo sjónvarpsþáttaröðin Flateyjargátan hefja göngu sína á RÚV en þættirnir eru framleiddir af Reykjavík Films og Sagafilm.