Ljóðabókin FLEKASKIL eða nokkrar hugleiðingar út frá jarðfræði og kenningum Alfreds Wegeners sem hvílir frosinn á miðjum aldri djúpt í Grænlandsjökli eftir Lárus Jón Guðmundsson, er væntanleg í nóvember. Ritstjóri var Sigþrúður Silju Gunnarsdóttir og útgefandi er Hugall ehf.
Hvítir miðaldra karlmenn eru mikið í fréttum þessa dagana og ekki alltaf af góðu tilefni. Skemmdu eplin fá verðskuldaða athygli og viðeigandi fordæmingu en fáir velta fyrir sér líðan og ástandi hinna eplanna í tunnunni. Í Flekaskilum er gægst undir huluna og velt upp áleitnum spurningum: Hver er sprettan á andlegum akri miðaldra karlmanns sem skynjar eigin dauðleika handan við hornið? Á hvaða vegferð er hann? Hvernig líður honum? Verður jarðarförin fjölmenn?
Alfred Wegener og örlög hans urðu höfundi innblástur og hugtök jarðsögunnar slá tóninn á vegferð hans frá vonleysi til vonar.
Á hópsöfnunarsíðunni Karolina Fund er hægt að panta bókina á hagstæðu forkaupsverði (2.890 kr) og áhugasamir geta fengið nafn sitt læst í ljóðstafi og sannir unnendur ljóðlistar eiga kost á ljóðasímtali.
Bókin verður til sölu á www.hugall.is frá miðjum nóvember og kostar þá 3.690 kr (heimsending innifalin).
ELDFJALL
Wegener sagði aldrei
að karlar væru eldfjöll
og konur höf
en þegar glóandi tungan
sígur
í vott djúpið
bullsýður
uns hraunið storknar
í steindri grettu
Sum eldfjöll
eru kulnuð
LAUSN
Dropinn þekkir steininn
Annar stíflar
og hinn holar
uns flæðir
um ódáinsakur
Ég stend
með lífið
í lúkunni
og treysti
á tárið