Á dögunum var Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands, kjörin forseti ASÍ. Hún er fyrst kvenna til að gegna því starfi. Drífa er vinstri sinnuð baráttukona með ríka sómakennd. Til marks um það sagði hún sig úr Vinstri grænum þegar flokkurinn gekk til stjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn. Drífa á ekki langt að sækja blóðrauðan baráttuandann. Afi hennar var Stefán Ögmundsson, eldheitur sósíalisti og baráttumaður fyrir kjörum íslenskra prentara. Hann var um tíma varaforseti ASÍ. Systursonur Stefáns, og þar með náfrændi Drífu, er annar baráttumaður. Það er Ögmundur Jónasson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra.