Í dag kl. 17 mun Ingibjörg Huld Halldórsdóttir opna myndlistarsýningu sína HELGIMYNDIR í Gallerí Gróttu – sýningarsal Seltjarnarness sem er á 2. hæðinni á Eiðistorgi (inni á Bókasafni Seltjarnarness). Sýningin verður opin til 25. nóvember samkvæmt opnunartíma bókasafnins.
Stórum spurningum er velt upp í sýningunni Helgimyndir. Því hvað þýðir samband foreldris og barns fyrir það hvernig samfélagið virkar? Frá fyrsta andartaki er barnið ósjálfbjarga og mótast af þeim raunveruleika sem mætir því við fæðingu: fjölskyldunni. Eins er samfélagið í raun mótað innan fjögurra veggja heimilisins, því barnið lærir ekki aðeins það sem fyrir því er haft, heldur er meðvirkur meðleikari í því sjónarspili sem hér fer fram.
Í olíu- og krosssaumsverkum á sýningunni veltir myndlistarmaðurinn þessum raunveruleika barnsins fyrir sér. Hvernig er samband foreldris og barns í þjóðfélagi þar sem skömm og meðvirkni ómeðvitað og meðvitað er notuð til að stjórna fólki? Er hornstein feðraveldisins að finna í þessu sambandi móður og barns?
Eins og í fyrri sýningum Ingibjargar er skömmin í brennidepli og málin skoðuð frá sjónarhóli barnsins. Myndirnar eru áhrifamiklar og vilja vekja áhorfandann til umhugsunar um samfélagið, fjölskylduna og eigin barnæsku.
Myndlistarmaðurinn Ingibjörg Huld Halldórsdóttir er fædd og uppalin í Borgarfirði. Hún lærði arkitektúr í Kaupmannahöfn og Lyon, Frakklandi, og vann lengi sem arkitekt og hönnuður samhliða listsköpun. Hún hefur tekið þátt í bæði einka- og samsýningum hér heima og í Danmörku.