Hauströkkur er titill málverkasýningar Ragnars Hólm sem haldin er í Deiglunni á Akureyri helgina 3.-4. nóvember. Þar sýnir hann nýjar vatnslitamyndir og einnig nokkur olíumálverk. Opið verður báða dagana frá kl. 14-17.
Ragnar hélt fyrstu einkasýningu sína í Populus tremula vorið 2010 en síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Hann hefur alla tíð teiknað og málað en fyrir um áratug ákvað hann að taka myndlistina fastari tökum. Þá lærði hann til verka hjá Guðmundi Ármann á Akureyri en hefur síðan einnig sótt sér kunnáttu í meðferð vatnslita í Svíþjóð, Finnlandi, á Ítalíu og Spáni.
Þetta er 14. einkasýning Ragnars en hann hefur að auki tekið þátt í samsýningum á Akureyri, í Reykjavík, í Avignon í Frakklandi og Fabriano á Ítalíu.
„Expressjónisminn heldur áfram að springa út. Ég vona að ég sé orðinn frjálslegri í noktun lita og ég held að vatnslitirnir finni sér farveg í olíumálverkunum. Þau eru dálítið vatnslitaleg á köflum.“
Tónlistarmennirnir Pálmi Gunnarsson og Kristján Edelstein leika af fingrum fram við opnun á laugardag.