Lof mér að falla er að slá í gegn á Busan, stærstu kvikmyndahátíð Asíu, en á tveimur uppseldum sýningum hafa viðtökurnar verið frábærar.
Í Korea Joongaang Daily er Lof mér að falla svo talin upp í World Cinema Section flokknum ásamt Roma eftir Alfonso Cuaron sem vann Gullna Ljónið í Feneyjum.
Bæjarráð Árborgar samþykkti á fundi sínum á föstudag tillögu Sjálfstæðisflokksins að bjóða nemendum í 9. og 10.bekk að upplifa Lof mér að falla sem þykir varpa góðu ljósi á hryllilegan heim fíkniefnaneyslu. Í tillögu Sjálfstæðisflokksins segir að ríki, sveitarfélög og frjáls félagasamtök hafi lagt sitt af mörkum til þess að fræða og gera ráðstafanir í forvarnarmálum ungs fólks. Sveitarfélagið gæti lagt sitt af mörkum með því að bjóða 9. og 10. bekkingum grunnskóla Árborgar á myndina sem sýnd er í Selfossbíói. Myndin sé gríðarlega áhrifarík og byggi meðal annars á sönnum atburðum um hræðilega ógæfu táningsstúlku sem gangi vel í skóla en missi fótanna í baráttunni við fíkniefnavandann. Bæjarráð samþykkti tillöguna og fól bæjarstjóra og íþrótta-og menningarfulltrúa að vinna málið áfram.
Þetta er frábært framtak hjá Árborg og óskandi að fleiri bæjarfélög geri slíkt hið sama því Lof mér að falla er sterkt verkfæri í forvarnarbaráttunni og eitthvað sem ungt fólk ætti að tengja við.