fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Fókus

Biggi lögga – „Nútímasamfélagið er því miður ákveðin fíklaverksmiðja“

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 8. október 2018 16:00

Birgir Örn Guðjónsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Birgir Örn Guðjónsson lögreglumaður fjallar í nýrri stöðufærslu á Facebook um vitundarvakningu sem orðið hefur í samfélaginu í kjölfar aukinna dauðsfalla af völdum fíkniefna og aukningu fíkniefna í umferð.

Um daginn kom frétt um að neysla krakks væri að aukast í samfélaginu. Vissulega mjög slæmar fréttir en þær koma alls ekki á óvart. Því miður. Síðustu ár hefur neysla fíkniefna bara aukist og vinsældir efna breytast með tíma og tíðaranda. Núna virðist sem betur fer vera ákveðin vitundarvakning í samfélaginu og fólk virðist virkilega vilja gera eitthvað í málunum. Þessi vakning kom eftir aukin dauðsföll af völdum fíkniefna og svo í kjölfarið myndin Lof mér að falla.

Veltir Biggi lögga upp þeirri spurningu hvort að vitundarvakningin sé komin til að vera eða hvort að Íslendingar muni bara taka eitt gott áhlaup og snúa síðan að öðru. Segir hann ekki annað koma til greina en að taka málin föstum tökum og finna lausnir sem virka.

 Ég er samt pínu hræddur um að við munum taka Íslendinginn á þetta. Tökum eina góða skyndisókn á málefnið og svo hættir hann að vera í tísku og annað tekur við. Það er bara ekki í boði.

Mér finnst samfélagið líka frekar ringlað eitthvað og ráðvillt. Það er eins og við viljum gera helling í þessum málum en svo hlaupum við bara í hringi. Það er talað um nauðsyn aukinna forvarna en það er svo rosalega misjafnt hvað fólk á við með orðinu „forvarnir“. Ég held að margir sjái þá fyrir sér einhvern jafnvel fyrrum fíkil sem fer í skólana og hræðir líftóruna úr börnum. „Eftir fyrsta smókinn ertu fíkill“ aðferðin. Þessi aðferð skilar mjög takmörkuðum árangri. Fræðsla um fíkniefni er vissulega nauðsynleg en hún þarf að vera fagleg. Krakkar vita alveg að það verða ekki allir fíklar sem prufa. Þeir eru ekki bjánar. Það þarf samt að fræða þá um hætturnar og ræða málin af virðingu.

Horfa þarf á forvarnir sem miklu víðara hugtak

En hvað í ósköpunum getum við þá gert meira? Er þetta vonlaus barátta? Nei alls ekki. Við þurfum að horfa á forvarnir sem miklu víðara hugtak. Neysla fíkniefna, löglegra og ólöglegra, er ágætis mælikvarði á heilbrigði þjóðar. Ef neysla eykst þá er samfélagið lasið og þá þarf að sjá hvort hægt sé að lækna það.

Fyrst þurfum við samt að viðurkenna eitt mjög mikilvægt atriði. Fíkniefnum verður aldrei útrýmt alveg. Það finnst ekki það samfélag í mannkynssögunni sem ekki hefur notast við einhverskonar hugbreytandi efni. Því þarf samfélagið að ákveða hvernig það tæklar þá staðreynd. Ég hef áður rætt mína skoðun á því og ætla svosem ekki að gera það núna. Vildi bara koma þessu að.

Ég heyrði eina konu segja að oft væri skaðsöm neysluhegðun einskonar sjálfstæðisbarátta einstaklings yfir eigin líkama. Ef þú ert til dæmis kona sem hefur orðið fyrir kynferðislegri misnotkun og hefur því í raun fundist aðrir hafa yfirráð yfir þínum líkama þá verður það að troða fingrinum ofan í kok, stinga nál í handlegginn eða nota fíkniefni einskonar sjálfsstæðisyfirlýsing þar sem þú segir „ég á þetta“. Ég held að það sé nokkuð til í þessu.

Notkun fíkniefna er líka flótti. Það kannast margir við það að nota áfengi vegna þess að þá finnst þeim eins og þeir sleppi úr skelinni og nái að skemmta sér almennilega. Þeir ná að flýja feimnina. Flestum virðast svo fráhvörfin næsta dag algjörlega þess virði og gera þetta aftur og aftur. Við þekkjum síðan sennilega flest einhvern sem hefur orðið háður áfengi og er í dag virkur eða óvirkur alkohólisti, sem er í raun bara samfélagslega fínna orð yfir fíkil. Ópíumefni eins og t.d. Fentanil, Oxicontín og heróín eru svo bara dæmi öflugri flóttaleiðir. Þegar hamarinn virkar ekki þá nærðu í sleggju.

Það er í raun ekki vitað af hverju sumir verða háðir en aðrir ekki. Það virðist samt í raun ekki vera efnið sjálft sem býr til fíknina, heldur einstaklingurinn sem neytir þess. Hvort það sé fortíð hans, upplifun, ótti, erfðir eða samfélagslegar aðstæður er svo spurning. Fráhvörfin geta líka verið þess eðlis að enginn vilji upplifa slíkt. Það eitt getur verið næg ástæða til að hætta ekki. Það sem menn klóra sér meira í hausnum yfir er af hverju fólk byrjar svona oft aftur eftir hafa verið hætt. Fíkn er sennilega eitthvað sem enginn getur skilið nema sá sem upplifir hana.

Biggi tekur sterkt til orða þegar hann segir nútímasamfélagið búa til fíkla. Sífellt meiri kröfur og lífsgæðakapphlaup valdi því að margir flýja í fíknina. Hins vegar séu vissulega jákvæðir hlutir að gerast líka og vonin er alltaf til staðar.

Nútímasamfélagið er því miður ákveðin fíklaverksmiðja. Lífsgæðakapphlaup er þjóðaríþrótt, samfélagsmiðlar búa til óraunhæfar staðalmyndir, samskipti eru orðin ópersónulegri, snjalltæki eru helstu fjölskylduvinurinn og þrýstingurinn á að skara framúr er endalaus. Krakkar keppast við að fá flestu fylgjendurnar, flestu lækin, flottustu fötin, dýrustu tækin, hæstu einkunnirnar og í íþróttum er allt annað en atvinnumennska klúður. Ef ekki hjá krökkunum, þá hjá foreldrunum. Ef þetta er ekki uppskrift af flótta þá veit ég ekki hvað.

Við erum samt að gera ýmislegt jákvætt og því er alveg von. „Me too“ umræðan er án efa að bjarga konum sem hefðu farið út í hættulega neyslu. Einnig er verklag lögreglunnar í heimilisofbeldismálum að bjarga einstaklingum frá fíkn. Bæði körlum, konum og ekki síður börnum sem hefðu annars orðið föst í hringiðu ofbeldis og ógnandi heimilisaðstæðna. Þetta eru keðjurnar sem við verðum að halda áfram að rjúfa. Þetta eru raunverulegar forvarnir.

Fer Biggi að lokum yfir hvað hann telur að felist í góðum forvörnum:

Ef við ætlum að ná árangri í forvörnum þá þurfum við sem samfélag að fara í raunverulega sjálfsskoðun. Forvarnir eru samfélag sem fagnar fjölbreytileika. Forvarnir eru samfélag sem viðurkennir mistök og þorir að taka á þeim. Forvarnir eru fjölskyldur sem gefa sér tíma. Forvarnir eru aukin sérfræðiaðstoð í grunnskólum. Forvarnir eru minni fordómar. Forvarnir eru leyfi einstaklinga til að gera mistök. Forvarnir eru aðstoð þegar eitthvað bjátar á. Forvarnir eru að hjálpa fólki að finna tilgang. Forvarnir eru vinátta. Forvarnir eru persónulegar. Forvarnir eru langhlaup.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Frægt fólk í framboði – Skrautfjaðrir eða þarfir þegnar?

Frægt fólk í framboði – Skrautfjaðrir eða þarfir þegnar?
Fókus
Í gær

Bjarki Steinn: „Ég átti allt sem ég gat hugsað mér veraldlega en innra líf mitt var í molum“

Bjarki Steinn: „Ég átti allt sem ég gat hugsað mér veraldlega en innra líf mitt var í molum“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Drottning hrekkjavökunnar afhjúpar svakalegasta búninginn til þessa

Drottning hrekkjavökunnar afhjúpar svakalegasta búninginn til þessa
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sonur Eyrúnar lést aðeins 18 ára af krabbameini – Hún tileinkar honum grein um netvináttu unglinga

Sonur Eyrúnar lést aðeins 18 ára af krabbameini – Hún tileinkar honum grein um netvináttu unglinga
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jón Gnarr bregður sér í nýtt hlutverk í dag

Jón Gnarr bregður sér í nýtt hlutverk í dag
Fókus
Fyrir 5 dögum

„Af hverju er svona mikil leynd yfir þessu. Hvað er verið að fela?“

„Af hverju er svona mikil leynd yfir þessu. Hvað er verið að fela?“