Einleikurinn Griðastaður eftir Matthías Tryggva Haraldsson um undurfurðulegt og þversagnakennt litróf hversdagsleikans verður frumsýndur í Tjarnarbíói í kvöld kl. 20. Jörundur Ragnarsson fer með eina aðalhlutverkið. Verkið er sett upp í samstarfi við Tjarnarbíó. Griðastaður hlaut mikið lof í vor sem eitt eftirminnilegasta útskriftarverkefnið frá Listaháskóla Íslands.
„Allir deyja, mamma. Allir deyja.“
Griðastaður fjallar um dauðleikann, fjöldaframleiðslu húsgagna, Billy-hillur, bældar tilfinningar, mömmur, sænskar grænmetisbollur, fyrrverandi kærustur, krúttlegar skjaldbökur, einsemd, sniðugar kryddhillur, dauðann, Nockeby-sófa, lífið, sorgina og fleira.
Handrit og leikstjórn: Matthías Tryggvi Haraldsson.
Á sviði: Jörundur Ragnarsson.
Dramatúrgía: Eydís Rose Vilmundardóttir og Jökull Smári Jakobsson.
Tónlist: Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir.
Ljós: Egill Ingibergsson og Hafliði Emil Barðason.
Búningar og leikmynd: Allir deyja leikfélag.
Matthías Tryggvi Haraldsson útskrifaðist frá Sviðshöfundabraut við Listaháskóla Íslands í vor með verkið Griðastað. Hann hefur verið virkur við handritaskrif og þýðingar um árabil og er einn af stofnendum hljómsveitarinnar HATARA. Sveitin, sem hefur vakið athygli fyrir ögrandi og metnaðarfulla sviðsframkomu, hefur tvisvar unnið titilinn „besta tónleikasveit ársins“ á tónlistarverðlaunum The Reykjavík Grapevine.