Linda Cuglia færir okkur málverka seríu byggða á sögunni af Íkarusi, á sýningu hennar sem opnar á morgun kl. 17 í Gallery Port Laugavegi 23b.
Sonur byggingarmeistarans Dædalosar sem smíðaði handa honum vængi – en Íkarus flaug of nálægt sólinni, vaxið sem hélt saman vængjunum bráðnaði og Íkarus féll til jarðar. Við þekkjum þessa sögu flest okkar svona á yfirborðinu en Linda ætlar að dýpka fyrir okkur þessa fornu frásögn, með málverki sínu sem hún hefur náð meistaralegu valdi á. Hún svarar kalli okkar samtíma sem kveður á skíran myndheim, sterkar og litríkar formgerðir, fígúrasjónir og tákn. Myndir sem fjalla um einfaldan sannleika þó um algjöran skáldskap sé að ræða.
Linda kemur frá suður Ítalíu, eða „undir ilinni á stígvélinu.“ Hún hefur sýnt víðar um Evrópu og einu sinni áður á Íslandi, í Borgarfirði á Plan B hátíðinni. Hún hefur alla tíð aðallega fengist við málverk en einnig innsetningarlist í víðara samhengi auk þess að vinna með vídeó. Sama hvaða miðil eða tjáningarmáta hún hefur fundið sér þá er það inntakið í verkunum sem skiptir máli.