Þetta er hluti af stærra viðtali í helgarblaði DV sem kom út í dag.
Þegar þú sérð þig fyrir tuttugu árum og svo eins og þú ert í dag, hverjar eru helstu breytingarnar, ef einhverjar eru, að þínu mati?
„Ég er fyrst og fremst miklu þolinmóðari og miklu reiðubúnari til þess að læra, einkum og sér í lagi af eigin mistökum. Ég held að þetta sé nákvæmlega tilgangur lífsins – þú lifir til þess að læra. Ég hef hitt fólk í lífinu sem að er einfaldlega alls ekki tilbúið til þess og rekur sig á sömu veggina og gerir stöðugt sömu mistökin aftur og aftur. Sem betur fer er ég tilbúinn til þess að skoða sjálfan mig í krók og kring, alltaf tilbúinn til þess að bæta mig. Til dæmis sú vinna sem við höfum unnið í Borgarleikhúsinu í Rocky Horror-söngleiknum. Þar hef ég gert mitt besta til þess að bæta mig milli sýninga. Núna erum við að sýna sýningu númer sextíu og ég held að þessi sýning hafi aldrei verið jafn sterk. Rocky Horror styrkist eftir því sem sýningarnar verða fleiri. Ég vil líka sjálfur vaxa og dafna, styrkja sjálfan mig og finna nýja liti í litaboxinu.“
Nú eru vinsældir þínar miklar hér heima. En erlendis?
„Nei, ég hef aldrei gert neitt alvarlegt til þess að koma mér út fyrir landsteinana.“