Nú þekkja eflaust flestir hljómsveitina Shades of Reykjavík en einn meðlimur hljómsveitarinnar er Arnar Guðni Jónsson, betur þekktur sem Prins Puffin. Hinsvegar er nýtt lag Arnars ekki gefið út á neinu listamannanafni eins og vanalega heldur á hans eigin nafni.
,,Mér fannst ekki passa að setja eitthvað listamannanafn sem ég hef notað á þetta lag, því að þetta lag er bara ég. Ég hef aldrei verið jafn berskjaldaður og í þessu lagi. Ég hef aldrei opinberað jafn persónulegar tilfinningar,” segir Arnar Guðni í viðtali á Babl.is.
Nýja lagið ber titilinn Arnar Hóll og fjallar um vini Arnars sem hafa dáið úr ofneyslu, meðal annars besta vin hans. Lagið er unnið í samstarfi við Minningarsjóð Einars Darra.
Þó að Arnar hafi skrifað lög sem lýsa persónulegri reynslu af neyslunni þá er þetta lag sem lýsir veruleikanum eins og hann er, en er ekki glansmynd af fíkniefnaneyslu.
Ég var í mjög mikilli sorg þegar ég byrjaði að skrifa textann á þessu lagi. Fyrst var ég mjög efins um að gefa lagið út, en svo þegar Minningarsjóður Einars Darra hafði samband við mig þá ákvað ég að breyta textanum aðeins og negla á þetta. Endanlegi textinn er mjög persónulegur en ég færði fókusinn aðeins frá mér og meira yfir á að það voru ungir strákar að deyja og það er ástæða fyrir því að þeir dóu.
Það er erfitt að takast á við sorgina sem fylgir því að missa besta vin sinn úr ofneyslu. Arnar syngur í viðlagi lagsins ,,kann ekki að díla við þessar tilfinningar, hjartað mitt er frosið og ég þarf að opna mig.”
Eitruð karlmennska er eitthvað sem Arnar segist hafa fundið fyrir, og að hann hafi þurft að horfast í augu við það að hann verði að leyfa sér að vera mannlegur. ,,Maður verður að leyfa sér að vera tilfinningavera. En það er alveg innbyggt í mann að fylgja einhverri staðalímynd af karlmennsku. Ég er bara mjög ósammála þessari staðalímynd. Strákar eru alveg jafn miklar tilfinningaverur og stelpur.”
Arnar þakkar móður sinni fyrir að hafa alið sig að mestu leyti ein upp, en honum var kennt af henni að hann megi tala um tilfinningar sínar og sýna þær. ,,Þessi klára kona ól mig upp og mér finnst ég vera ótrúlega heppinn með það.
Það þýðir samt ekki að á sama tíma fékk ég allt önnur skilaboð um karlmennsku og hvernig ég ætti að vera frá umhverfinu. Þannig það blandaðist við það sem mamma sagði mér.
Var á myrkum stað í lífinu, bað um hjálp og þáði hana
Arnar hefur verið á myrkum stöðum á lífinu og segir að hann skilji vini sína vel sem eru farnir úr þessum heimi. Munurinn á Arnari og þeim er að Arnar bað um hjálp og gat þegið hana.
,,Ég hef verið á stað þar sem ég var að hugsa um að drepa sjálfan mig, og ég hef verið í mikilli neyslu. En ég er á lífi því ég bað um hjálp. Ég bað ekki bara um hana heldur tók ég henni þegar hún kom.” Arnar segir að það hafi verið erfiðast að viðurkenna að hann þyrfti á hjálp að halda, en um leið og hann var búinn að leita sér hjálpar varð það ekkert mál.
Lífið verður strax betra. Það er skrýtið að sjá það í dag, á meðan að vinir mínir eru dánir, þá bý ég út í LA (Los Angeles) og var að útskrifast úr leikstjórnarskóla. Lífið mitt er bara geðveikt gott. Mér líður vel. Maður þarf ekki að vera að fá sér til að líða ágætlega.
Það eru liðin tvö ár og 10 mánuðir síðan Arnar varð edrú. Á þeim stað sem hann var kominn á áður en hann ákvað að verða edrú var ekkert annað í stöðunni en að taka sér tak. ,,Ég var bara brotinn. Ég var rosalega veikur andlega. Mér fannst ég vera orðinn geðveikur. Þá var ég búinn að vera í neyslu í þó nokkur ár.
Ég man ég var hellaður í einhverju partýi og það rann upp fyrir mér að ég var búinn að vera í sama partýinu í þrjú ár. Það var ekkert búið að ske í lífinu í þrjú ár. Ég var bara búinn að missa allan þennan tíma í eitthvað rugl. Mig langaði ekki í meira af þessu rugli. Lífið hlaut að vera meira en þetta.”
Finnst þér erfitt að horfa upp á vini þína sem eru enn í neyslu?
Það er náttúrulega alltaf erfitt en ég get ekki breytt öðru fólki. Ef fólk er á sérstaklega vondum stað þá reynir maður kannski að tala við það en það er ekkert hægt. Það er það erfiðasta við þetta. Maður getur ekki bjargað fólki sem vill ekki láta bjarga sér, en þó fíkn sé hræðilegur sjúkdómur og erfiður viðureignar þá hafa allir eitthvað val. Að þiggja hjálp eða ekki. Ég verð að hugsa um sjálfan mig og halda mér góðum. En þeir vinir mínir sem vilja verða edrú mega hringja í mig því ég get hjálpað þeim. Þegar þeir eru tilbúnir að verða edrú þá er ég til staðar.
Þegar maður hættir í neyslu þá er ekki aftur snúið í eftirpartýið. Margir eiga erfitt með að fóta sig eftir að verða edrú því oft þarf fólk að kveðja gamla, góða og jafnvel einu vini sína. ,,Það var alveg ákveðið lið sem ég gat ekkert verið í kringum lengur. En ég átti hins vegar fullt af æskuvinum sem voru búnir að fjarlægjast mér á meðan ég var í neyslu, sem ég kynntist upp á nýtt. Ég tengdist líka fjölskyldu minni miklu betur.”
Arnar vonast til að Arnar Hóll fái krakka í neyslu til að skilja að besti vinur þeirra gæti dáið út af fíkniefnum. ,,Það er raunveruleikinn. Ég bjóst alls ekki við því að ég myndi þurfa að mæta í jarðarför góðra vina minna. Þessir strákar dóu allt of ungir, það er staðreyndin.
Fólki sem finnst þetta eitthvað kúl fattar líka ekki að þegar maður er að fá sér þá finnur maður ekki fyrir neinu. Manni finnst þetta hvorki nett eða eitthvað annað. Maður er bara fíkill.” Arnar segir að það sé samt ekki ætlunin að dæma fólk með nýja laginu. ,,Ég er ekki að reyna að segja hvað er rétt og hvað er rangt, ég er bara að reyna að segja hvernig þetta raunverulega er.”