Menningarverðlaun DV fyrir árið 2017 verða afhent við hátíðlega athöfn föstudaginn 5. október klukkan 16:30 í nýjum og glæsilegum höfuðstöðvum DV að Suðurlandsbraut 14. Í ár verða veitt verðlaun í sjö flokkum; kvikmyndum, leiklist, tónlist, myndlist, bókmenntum, fræðum og stafrænni miðlun auk þess sem veitt eru sérstök heiðursverðlaun. Formaður dómnefndar er myndlistarkonan Mireya Samper.
Hrafnhildur Arnardóttir einnig þekkt sem Shoplifter hélt innsetningu í Listasafni Íslands frá 26. maí til 22. október. Hrafnhildur hefur á undanförnum 15 árum hefur hún á umfangsmikinn hátt kannað notkun og táknrænt eðli hárs, og sjónræna og listræna möguleika þessarar líkamlegu afurðar.
Í kynningu á sýningu hennar á Listasafni Íslands segir að í verkum hennar fáist hún við sögu þráhyggju mannsins gagnvart hári og hvernig má upplifa hár sem birtingarmynd sköpunar í nútíma menningu, sem tekst á við hugmyndir á mörkum þráhyggju eða blætis. List hennar hverfist að mestu um skúlptúra, staðbundnar innsetningar og veggverk, sem fjalla jafnan um hégóma, sjálfsmynd, tísku, fegurð og goðsagnir í almannavitundinni.
Fyrir áhugaverða og frumlega uppsetningu á sýningu í gömlu fjárhúsunum á bænum Kleifum rétt utan við Blönduós. Listamenn sem áttu verk á sýningunni voru Olga Bergmann, Anna Hallin, Dodda Maggý, Ragnar Kjartansson og Egill Sæbjörnsson. Um var að ræða fjögur vídeóverk sem sýnd voru hvert í sinni kró fjárhúsanna. Hjónin endurtóku svo leikinn í sumar þegar listsýningin Inniljós var opnuð í útihúsunum. Ætla hjónin að halda áfram að glæða menningarlífið í sveitinni.
Myndlistarmaðurinn Þrándur Þórarinsson sækir mikið innblástur sinn í þjóðsögur og fornan menningararf Íslendinga. Lærifaðir hans er hinn norski Odd Nerdrum. Á síðustu árum hefur hann fikrað sig fram í tíma hvað myndefni varðar. Þá hefur samfélagsrýni ratað inn í myndir hans og sækir hann innblástur í listasöguna alla. List Þrándar var áberandi á árinu 2017 og vakti ný útgáfa af Grýlu athygli sem og brennandi Ikea-geitin sem framkvæmdastjóri IKEA vildi ólmur eignast. Þrándur hefur á þessu ári haldið áfram að skapa umdeild verk og það sem vakti hvað mesta athygli er af Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra að troða sér í nábrækur. Verk Þrándar seljast nú vel og hélt Þrándur sína fyrstu sýningu erlendis en hún var við Íslandsbryggju í Kaupmannahöfn.
Elín Hansdóttir (f.1980) vakti mikla athygli fyrir sýninguna Simulacra í i8 Gallerí á Tryggvagötu veturinn í fyrra. Hún er þekkt fyrir stórar innsetningar sem breyta sýningarrými.
Á sýningunni Simulacra mátti sjá frumlega nýtingu á rými með því að sýna níu ljósmyndir af blómavasa, hægt og rólega virðast blómin svífa í lausu lofti áður en þau visna og deyja. Til ná sjónhverfingunni notaði Elín tækni sem notast var við á upphafsárum kvikmyndagerðar í Hollywood, að mála ljósmyndir á glerplötur og koma fyrir á súlu, nær hún þannig að blekkja auga áhorfandans. Síðasta haust var Elín ein þriggja listamanna sem tók þátt í tónlistarhátíðinni Deilt sem fór fram á Listasafni Reykjavíkur.
Davíð Örn Halldórsson (f. 1976) sýndi verk sín á sýningunni Uppi – Niðri á Hverfisgallerí sumarið 2017. Hann er þekktur fyrir að vinna mikið með sterka liti og litasamsetningar og hefur unnið bæði málverk og rýmisverk sem minna á graffítíverk. Blandar hann saman ýmsum formum og efnum eins og skipalakki, spreyjar með úðabrúsalakki og teiknar með tússi á tréplötur, pappa eða beint á veggi. Davíð útskrifaðist úr Listaháskólanum vorið 2002 og hefur mikið notað óhefðbundna striga, þar á meðal húsgögn og tréplötur.