Hjónin Guðrún Stefánsdóttir og Theodór Júlíusson voru tilnefnd heiðursfélagar Leikfélags Reykjavíkur á aðalfundi félagsins sem haldinn var í Borgarleikhúsinu í gær, mánudaginn 29. október.
Guðrún Stefánsdóttir hætti nýverið sem miðasölustjóri Borgarleikhússins eftir að hafa unnið hjá Leikfélagi Reykjavíkur frá opnun Borgarleikhússins árið 1989 og sá einnig um veitingasölu í húsinu í tvo áratugi. Vandaðari, skemmtilegri, vinnusamari, ósérhlífnari og yndislegri manneskju er vart hægt að finna og það hefur verið mikil gæfa fyrir Leikfélag Reykjavíkur að vera samferða Guðrúnu síðastliðin 30 ár.
Theodór Júlíusson hóf leiklistarferil sinn í áhugaleikhúsi 1970 en árið 1989 var hann ráðinn til Leikfélags Reykjavíkur við opnun Borgarleikhússins. Áður hafði hann leikið hjá Leikfélagi Akureyrar í fjölda ára. Theodór lék í yfir sextíu sýningum hjá Leikfélagi Reykjavíkur, má þar nefna opnunarsýninguna í Borgarleikhúsinu, Höll sumarlandsins, Þrúgur reiðinnar, Vanja frænda, Evu Lúnu, Óskina (Galdra-Loft), Línu Langsokk, Hið ljósa man, Galdrakarlinn í Oz, Mávahlátur, Vorið vaknar, Puntilla og Matta, Héra Hérason, Draumleik, Gosa, Fló á skinni, Hetjur, Fýsn, Milljarðamærin snýr aftur, Söngvaseið, Fjölskylduna, Kirsuberjagarðinn og Auglýsingu ársins.
Theodór hefur þrisvar verið tilnefndur til Grímuverðlauna fyrir hlutverk sín í Puntilla og Matta, Söngleiknum Ást og Fjölskyldunni. Þá var hann útnefndur heiðurslistamaður Kópavogs 2014.
Meðfram störfum í leikhúsum hefur hann leikið í fjölda útvarpsleikrita, sjónvarpsþátta, stuttmynda og kvikmynda t.a.m í Englum alheimsins, Djúpinu, Eldfjalli og Hrútum. Eldfjall og Hrútar voru frumsýndar á kvikmyndahátíðinni í Cannes og þær unnu til fjölda verðlauna á kvikmyndahátíðum um allan heim sem besta myndin, besti leikstjórinn, besti leikarinn og sópuðu auk þess að sér Edduverðlaunum hér heima.
Theodór stundaði leiklistarnám við The Drama Studio London auk þess að hafa sótt námskeið í leik og leikstjórn bæði hér heima og erlendis. Hann satt einnig í stjórn hjá Leikfélagi Reykjavíkur í 14 ár.