Mikil eftirvænting er eftir kvikmyndinni Bohemian Rhapsody, sem fjallar eins og nafnið gefur til kynna um hljómsveitina Queen, með áherslu á söngvara sveitarinnar, Freddie Mercury.
Myndin er forsýnd á Íslandi í kvöld, þriðjudag, og út vikuna, og frumsýnd á föstudag. Upplýsingar um kvikmyndahús og sýningartíma má finna hér.
Myndin var heimsfrumsýnd í London síðastliðinn þriðjudag og dugði ekkert minna til en Wembley Arena og Wembley Stadium. Queen kom einmitt fram á Wembley Stadium 13. Júlí 1985 á góðgerðartónleikunum Live Aid, en framkoma sveitarinnar þar er talin ein af bestu tónleikum allra tíma.
Viðstödd frumsýninguna voru Rami Malek, Gwilym Lee, Ben Hardy, Joe Mazello, Lucy Boynton, Mike Myers, Allen Leech, Aidan Gillan og Tom Hollander, auk Brian May og Roger Taylor meðlima Queen. Framleiðendurnir Graham King og Jim Beach mættu einnig.
Systir Mercury, Kashmira Cooke, var einnig viðstödd. Til gamans má geta þess að tvíburabróðir Rami Malek mætti, og fékk hann áhorfendur til að horfa tvisvar.
Viðstaddir frumsýninguna voru 7500 gestir sem sungu með og endaði sýningin með dynjandi lófaklappi og stóðu gestir á fætur meðan leikarahópurinn steig á svið og hneigði sig.