Nú stendur yfir einkasýning á verkum Georgs Guðna í Hverfisgallerí og Gallery GAMMA, stendur hún til 1. desember.
Fimm ár eru liðin frá því að síðast var haldin einkasýning á verkum Georgs Guðna. Þegar Georg Guðni var bráðkvaddur aðeins fimmtugur að aldri sumarið 2011 hafði hann á gifturíkum og frjóum þriggja áratuga ferli náð að enduruppgötva íslenska landslagsmálverkið og tengja persónulega sýn sína á íslenska náttúru á afar áhugaverðan hátt við samtímann og íslenska samtímalist. Georg Guðni mat og skildi náttúru landsins á sinn hátt, mótaði hana og túlkaði á sinn einstaka hátt, undir áhrifum af verkum ólíkra myndlistarmanna, rithöfunda og ljósmyndara frá hinum ýmsum tímum.
Fólk hefur hrifist af myndheimi Georgs Guðna, skynjun hans og túlkun, á fegurðinni, dýptinni og einlægninni. Þegar ferli hans lauk, svo alltof snemma, var hann fyrir löngu orðinn einn dáðasti listamaður þjóðarinar – listamaður sem tengdi á einstakan hátt við kjarnann í landinu og samfélaginu.
Georg Guðni (1961 – 2011) var frumkvöðull meðal ungra listamanna á níunda áratug síðustu aldar með áherslu sinni á landslagsmálverk. Í stað þess að gera tilvist mannsins að umfjöllunarefni í verkum sínum eins og algengt var á þeim tíma, þá málaði hann náttúruna. Með þessari nálgun sinni gæddi hann landslagsmálverkið nýjum krafti hér á landi og tók þátt í að endurvekja áhuga á málverkinu sem miðli listamanna. Landslagsmálverk Georgs Guðna eru oft á tíðum byggð upp á geómetrískan hátt, en á sama tíma eru þau ákaflega persónuleg. Málverk hans eiga sér líka sterka samfélagslega tengingu. Náttúran, eins og Georg Guðni sýnir hana, er oft á tíðum einfölduð og hlutgerð upp að vissu marki, en ekki skálduð. Verkin gefa frá sér sterkt og ákveðið andrúmsloft og þekkjast á sínum fágaða einfaldleika.
Verk Georgs Guðna hafa verið sýnd víða bæði á einkasýningum og samsýningum, á Norðurlöndunum og í Evrópu, en einnig í Bandaríkjunum, Suður-Ameríku og Kína. Verk Georgs Guðna er að finna á öllum helstu söfnum Íslands og fjölda safna erlendis sem og í einkasöfnum.
Georg Guðni fæddist í Reykjavík árið 1961. Hann stundaði nám við Myndlista – og handíðaskóla Íslands og lauk framhaldsnámi við Jan van Eyck Akademie árið 1987. Hann lést árið 2011 einungis 50 ára að aldri.
Á sýningunni eru bæði olíuverk og vatnslitaverk. Sýningin stendur til 1. desember.