Þetta er brot úr stærra viðtali í helgarblaði DV.
Á Siglufirði snerist lífið um sjávarútveg og Heiðveig kynntist snemma öllum hliðum fiskvinnslu, rækjuvinnslu, saltfiski og fleiru. Þegar aflinn var mikill var hringt úr frystihúsinu í skólann til að Heiðveig og skólasystur hennar gætu fengið að fara fyrr til að vinna. Atvinnulífið hafði forgang. Í kringum tvítugt ákvað hún að reyna fyrir sér sem háseti og faðir hennar hvatti hana til að sækja um á skipum rétt eins og aðrir myndu gera.
„Ég sótti um allt frá smábátum upp í togara. Flestir sögðu nei og sumir hlógu. Aðrir sögðu mér að hringja aftur eftir viku og því hélt ég utan um símtölin í stílabók.“
Fannst þeim skrýtið að stúlka væri að sækja um?
„Margir sögðust ekki ráða konur, punktur,“ segir Heiðveig með áherslu. „Aðrir reyndu að tala um fyrir mér og sögðu að ég hefði ekkert að gera í þetta. Ég komst loksins á togara frá Hafnarfirði sem heitir Ýmir, því það vantaði mann. En ég þurfti að þræta við skipstjórann og sannfæra hann að þetta væri sama vinna og í frystihúsinu. Hann þurfti að fá leyfi frá eigandanum, Guðrúnu í Stálskipum, sem var nú oft talin harðstjóri. Loks fékk ég að fara ef ég borgaði slysavarnaskólann sjálf. Ég hafði hálftíma til að drífa mig út í Fjarðarkaup til að kaupa nærbuxur og sokka og síðan fórum við á fínan þrjátíu daga úthafskarfatúr.“
Heiðveig segir að í upphafi hafi hún ekki séð sjómennskuna fyrir sér sem framtíðarstarf heldur hafi hún aðeins verið að athuga hvort þetta væri virkilega eitthvað sem varið væri í.
„Mér fannst þetta æði. Á þessum tíma var ekkert internet, ég var vakin og búið að elda fyrir mig í hvert skipti sem ég fór á fætur og í lok vaktar. Síðan vann ég eftir klukkunni og fór að sofa eftir vakt. Þessi rammi og þetta næði var einstaklega heillandi og hentaði mér.“