Todmobile fagnar 30 ára afmæli með stórtónleikum í Eldborg föstudaginn 2. nóvember. Sérstakur heiðursgestur á tónleikunum verður Midge Ure, söngvari og lagahöfundur hljómsveitarinnar Ultravox en einnig kemur SinfoniaNord fram á tónleikunum sem eru haldnir sléttum þremur áratugum eftir að Todmobile gaf út sitt fyrsta lag árið 1988. Ári síðar leit fyrsta breiðskífa sveitarinnar dagsins ljós og nú eru þær orðnar átta talsins, vinsælu lögin fjölmörg og tónleikar sveitarinnar um allt land nær óteljandi.
James „Midge” Ure fæddist árið 1953 og sló ungur í gegn með skosku sveitinni Slik sem náði einu lagi á topp breska vinsældalistans. Þaðan lá leið Ure í hljómsveitina Visage en lag Midge með Visage, „Fade To Gray” naut mikilla vinsælda víða um heim árið 1980. Midge Ure kom einnig við í írsku rokksveitinni Thin Lizzy og gekk svo til liðs við hljómsveitina Ultravox en sú sveit átti eftir að slá í gegn um allan heim með lögum á borð við „Vienna”, „Dancing With Tears In My Eyes”, „Hymn” og fleirum. Árið 1984 samdi Ure lagið „Do They Know It’s Christmas?” ásamt Bob Geldof og var í kjölfarið aðal hvatamaður Live Aid tónleikanna, ásamt Geldof árið 1985. Sama ár hóf Midge Ure sólóferil sinn og naut mikillar velgengni, meðal annars með laginu „If I Was” sem náði fyrsta sæti í Bretlandi. Midge Ure var sæmdur OBE orðunni árið 2005 fyrir störf sín að tónlist og góðgerðarmálum, sama ár og hann stóð fyrir Live 8 tónleikunum víða um heim.
Todmobile hefur áður haldið tónleika í Eldborg ásamt erlendum listamönnum sem meðlimir hljómsveitarinnar líta á sem áhrifavalda sína. Árið 2013 var það Jon Anderson, söngvari hljómsveitarinnar YES. Í janúar 2015 var komið að Steve Hackett gítarleikara Genesis og haustið 2016 var Nik Kershawsérstakur gestur Todmobile í Eldborg.
Á tónleikunum í Eldborg 2. nóvember flytja Todmobile og Midge Ure, ásamt SinfoniaNord, öll vinsælustu lög Todmobile, Ultravox og Midge Ure.
Meðlimir Todmobile eru: Andrea Gylfadóttir, Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, Eyþór Ingi Gunnlaugsson, Eiður Arnarsson, Kjartan Valdemarsson, Ólafur Hólm, Alma Rut og Greta Salóme.