Þetta er brot úr stærra viðtali í helgarblaði DV.
Eftir að Heiðveig kynnti framboð sitt og síns lista nýverið, var reglum félagsins um kjörgengi skyndilega breytt á heimasíðunni. Mest íþyngjandi ákvæðið var að þriggja ára vera í félaginu var gerð að skilyrði fyrir kjörgengi til formanns, og var Heiðveig ásamt mörgum öðrum þar með útilokuð.
„Margir hverjir töldu að þeir væru að fara inn í félagið á fullum réttindum rétt eins og tekið er fram á heimasíðu og í samtölum við starfsmenn skrifstofu,“ segir hún.
Þegar Heiðveig spurðist fyrir um þetta var henni tjáð að reglunum hefði verið breytt á síðasta aðalfundi, fyrir nærri ári síðan, en ekki var hægt að veita aðgang að fundargerð heldur einungis senda ljósmyndir af stílabók með áprentuðum skjölum.
„Þetta eru algjörlega óboðleg og ólögleg vinnubrögð og það þarf að taka efnislega umræðu um þetta. Að breyta lögum stéttarfélags á heimasíðu og án heimildar aðalfundar. Á þessum ljósmyndum er aðeins að finna eina breytingu af átta sem voru gerðar á heimasíðunni. Ég set einnig stórt spurningarmerki við þessa fundargerð í ljósi þess hversu erfitt var að fá hana og að lagabreytinga er ekki getið í fundarboði eins og lögin kveða á um. Auk þess skrifar formaðurinn, Jónas Garðarsson, einn undir þó að fundarritari í stjórn félagsins eigi að gera það líka samkvæmt lögunum. Þessi skrípaleikur í kringum þessi lög og kynningu þeirra hefur gert þau óstarfhæf og greinar stangast á.“
Telur þú að fundargerðin hafi verið fölsuð?
„Nei, ég hef aldrei sagt það. En ég set spurningu við gildi fundargerðarinnar sjálfrar miðað við þennan skrípaleik og þessar sjö aukabreytingar sem allar varða réttindi félagsmanna og núverandi stjórn.“
Heldur þú að þetta sé gert til að halda þér frá stjórninni?
„Já, og ekki aðeins mér heldur öllum sem vilja breytingar og vilja láta til sín taka.“