Ragga Nagli er klínískur heilsusálfræðingur og einkaþjálfari. Á Facebook heldur hún úti vinsælli síðu þar sem hún birtir reglulega pistla um hreyfingu, mataræði og fleira. Í þessum fjallar hún um að hliðarspor af heilsubrautinni eru ekki endir alls.
Ein máltíð hér og þar sósuð í sukki og sætindum er bara lítið næringarprump ef aðrar máltíðir eru grænar og vænar.
Smá hliðarspor af heilsubrautinni er eins og að stoppa á rauðu ljósi.
Tíminn þar sem þú getur íhugað og spáð og spekúlerað hvað virkaði og hvað virkaði ekki.
Eða tíminn þar sem þú tekur þátt í félagslífi og nýtur lífsins lystisemda.En ef hausinn gerir slíkt hliðarspor að dramatískum grískum harmleik áttu á hættu að hanga á þessu rauða ljósi allan daginn, eða jafnvel vikuna eða mánuðinn.
Þar til Vaka dráttarbílaþjónustan dregur þig í burtu á tjónaverkstæðið.
En hinsvegar ef þú planar hvernig þú ætlar að taka af stað aftur eftir stoppið þá nærðu árangri.
Að nota nálgunina „Ef….þá“ mun hjálpa þér
Ef ég lendi á rauðu ljósi þá ætla ég að setja í fyrsta gír og ýta á bensíngjöfina til að taka af stað aftur.
„Ef ég skúbba hnallþóru í ginið í föstudagskaffi ætla að fá mér hollt í hádeginu. „
„Ef ég kemst ekki á æfingu í dag ætla ég að gera tuttugu armbeygjur yfir tíu-fréttum.“Það er auðvelt að selja sér þá óhjálplegu hugsun að heilsumelur sé heimsyfirráð í mataræði og hreyfingu.
Ekki missa úr eina einustu æfingu.
Ekki víkja millimeter frá hollustu í snæðingum.Ef þú gerir það ertu lúser. Aumingi með hor. Landeyða. Sóun á súrefni.
Og getur gengið plankann. Með gapastokk. Tjargaður og fiðraður á torgum.
En að halda dampi er ekki það sama og vera fullkominn.
Þú þarft ekki að stunda glæfralegan ofsaakstur á Sæbrautinni til að halda dampi.
Þú þarft bara að keyra á löglegum hraða. Og þó þú lullir löturhægt eins og afi gamli með kaskeyti og hanska. Tíu mínútur í tvö á stýrinu. Þá ertu samt að fara í rétta átt. Áfram.
Þú ert að ná árangri.En þó þú stoppir á leiðinni með að missa úr æfingu út af annríki, slátra kökusneið í afmæli eða gúffa pizzu í partýi þá tekurðu alltaf af stað aftur.
Það er eins og að stoppa á rauðu ljósi á laugardagsrúntinum.
Svo tekurðu af stað aftur í fyrsta gír. Það getur verið erfitt fyrstu metrana, en svo skiptirðu upp í annan gír og aftur í þriðja gír.
Og áður en þú veist af ertu kominn á gott skrið og krúsar heilsubrautina.