Fyrir ári síðan var verkefnið Lestrarvinir tekið í prófun hjá Borgarbókasafninu, en það er hollenskt að uppruna. Verkefnið gekk vonum framar og því var ákveðið að taka það formlega inn í dagskrá Borgarbókasafnsins, og hafa fleiri bókasöfn utan höfuðborgarsvæðisins sýnt því áhuga.
Lestrarvinir er skemmtilegt verkefni sem sameinar fjölskyldur og bókelska sjálfboðaliða sem heimsækja þær vikulega og lesa fyrir börnin á íslensku; sjálfboðaliðinn kemur í heimsókn til barnsins með nýtt og spennandi lesefni í farteskinu tuttugu sinnum yfir veturinn til að efla lesskilning barnsins og kynda undir lestraráhuga.
Laugardaginn 12. október hittust fjölskyldurnar og sjálfboðaliðarnir saman í fyrsta skipti í Borgarbókasafninu Grófinni.
Verkefnið Lestrarvinir var kynnt, Eliza Reid forsetafrú sagði frá reynslu sinni af að eiga tvítyngd börn, fjölskyldur og sjálfboðaliðar fóru í ratleik um safnið og örnámskeið var haldið fyrir sjálfboðaliða.