fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fókus

Grétar hlaut dóm fyrir Líkfundarmálið – „Ég er enginn engill og verð aldrei hvítþveginn“

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 22. október 2018 21:00

Grétar Sigurðarson Mynd: Austurfrétt

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Grétar Sigurðarson er einn þriggja manna sem hlaut dóm í hinu svokallaða líkfundarmáli árið 2004, en kvikmyndin Undir halastjörnu sem byggir á málinu er nú sýnd í kvikmyndahúsum.

Í viðtali við Kristborgu Bóel Steindórsdóttur hjá Austurglugganum ræðir Grétar Líkfundarmálið, samband sitt við móður sína, vini og ættingja, sjálfsvinnuna og edrúmennskuna, en Grétar flutti nýlega til Spánar til að vernda syni sína fyrir aðkasti og hyggst gefa út barnabók fyrir jólin.

Viðtalið við hann má lesa í heild í Austurglugganum sem kom út í síðustu viku.

DV 23. febrúar 2004. Leikendur í líkfundarmálinu.

Líkfundarmálið 2004

Þann 11. febrúar 2004 fannst lík af karlmanni í höfninni í Neskaupstað, vafið inn í plastpoka og teppi. Níu dögum síðar voru þrír menn handteknir, auk Grétars, þeir Jónas Ingi Ragnarsson og Tomas Malakauskas. Sá látni var Vaidas Jucevicius. Þremenningarnir hlutu allir tveggja og hálfs árs fangelsisdóm fyrir innflutning á amfetamíni, fyrir að koma manninum ekki til aðstoðar og fyrir illa meðferð á líki hans.

Síðan eru liðin fjórtán ár. „Ég hef oft hugsað um hvernig það hefði verið hefði þetta aldrei komist upp. Hvernig mér liði í dag ef ég hefði þurft að þaga yfir þessu alla ævi, aldrei getað talað um þetta við neinn og þá ekki unnið úr þessu,“ segir Grétar, sem að eigin sögn hefur unnið mikið í sjálfum sér eftir verknaðinn. „Ég er búinn að vinna mikið í mínum málum og reyna að sættast við þetta, ég breyti engu héðan af hvort sem er.“

Atburðurinn hefur verið dreginn upp reglulega, en meðal annars með þætti um málið í Sönnum íslenskum sakamálum og nú með kvikmyndinni.

„Þetta er rifjað upp aftur og aftur, endalaust,“ segir Grétar í viðtalinu. „Það er reyndar búið að segja söguna svo oft og krydda hana svo mikið að ég er hættur að þekkja uppruna hennar. Fullt af fólki sem ég þekki er ennþá skíthrætt við mig og veit ekki hvort það á að heilsa eða hlaupa í burtu þegar það sér mig. Ég skil alveg að sumt fólk geti ekki „feisað“ mig, ég meina, hvernig á venjulegt fólk að geta skilið þetta? Hvernig ætti það að geta komið sér í slíkt klandur?

Ég er áberandi og hef alltaf verið. Ég er heldur ekkert feiminn við að vera ég. En það er mjög þreytandi að vera „Grétar líkmaður“, upplifa að fólk sé skíthrætt við mig og líti á mig eins og skepnu. Ég veit að ég er ekki smáfríður, en ég er ekki illmenni. Úti á Spáni er ég bara eins hver annar gúbbífiskur, ég vinn mína vinnu, lifi mínu lífi og er einn af fjöldanum, en það er ótrúlega þægilegt og mikið frelsi.“

Lestu einnig: Þjóðin fylgdist agndofa með líkfundarmálinu

Öflugur innan AA samtakanna og hefur unnið mikið í sjálfum sér

Í viðtalinu talaði Grétar mikið um móður sína og segist vera mikill mömmustrákur og samband þeirra mjög gott í dag, enda hafi hún leitað sér hjálpar eftir að líkfundamálið kom upp. Hann sagði meðal annars; „Eins og sannur karlmaður fór ég beint austur til mömmu.“ Segir hann móður sína vera harðasta kvikindi sem Guð hefur alið, en hún varð ekkja 24 ára gömul með þrjú börn.

Hvaða áhrif telur hann að málið hafi haft á móður hans og fólkið í kringum hann? „Alveg skelfileg, hreint út sagt. Enn þann dag í dag er baklandið mitt ekki það sama og áður. Ég ætlaði aldrei að láta ná mér og í mikilli örvæntingu reyndi ég að ljúga mig út úr þessu öllu saman til að byrja með. Fólkið mitt vissi að ég var í einhverju rugli en gerði sér enga grein fyrir því hve alvarlegt það var. Þetta kom því flatt upp á það og allir voru því skiljanlega ofboðslega sárir og reiðir yfir því hvernig ég kom fram og sumir eru það ennþá. Fólkið í Neskaupstað hefur þó alltaf tekið mér alveg ótrúlega vel og ég vil meina að Norðfirðingar séu besta fólk í heimi. Auðvitað var erfitt fyrir mig að koma austur fyrst á eftir, en í dag er það bara fínt. Enginn staður er betri fyrir mér en Norðfjörður þó svo ég gæti aldrei búið þar aftur.“

Í viðtalinu segir Grétar að hann muni aldrei gleyma líkfundamálinu og verði að lifa með því alla tíð, þó að málið sæki ekki mikið á hann í dag. „Ég hef mikið unnið í sjálfum mér og tókst til dæmis á við áfallastreituröskun með sálfræðingi erlendis. Þá hef ég verið öflugur innan AA-samtakanna og lagt mig fram við að hjálpa öðrum þar. Þar hef ég eignast góða og trausta vini, samstaðan er mikil og menningin á þann hátt að allir hjálpast að og styðja hvern annan.“

Lestu einnig: Ari Alexander var með líkfundarmálið í maganum í fjórtán ár

Flutti með fjölskylduna til Spánar til að vernda börnin

Grétar hefur verið í sambúð með konu síðan 2011 og saman eiga þau tvo syni, sex ára og átta mánaða. Fjölskyldan flutti til Spánar fyrir tæpum tveimur mánuðum og segir Grétar það vera til þess að vernda börnin.

„Ég vil ekki að synir mínir þurfi að vaða minn skít. Þeir verða að fá að lifa sínu lífi óáreittir. Sá eldri kom til mín um daginn og spurði af hverju ég hefði verið krimmi? Af hverju ég hefði verið í fangelsi? Ég hef ekki hugmynd um hvar hann heyrði það, en hann er aðeins sex ára gamall. Þetta er ástæða þess að við fluttum úr landi, til þess að gefa þeim frið. Ég mun aldrei losna við þennan stimpil og vorkenni mér það ekki neitt, en börnin mín eiga ekki skilið að þurfa að standa í þessu bulli.“

„Flesta daga er ég mjög hamingjusamur“

Grétar segist vera nokkuð sáttur með lífið og tilveruna í dag. En hræðist hann að lenda út af beinu brautinni? „Flesta daga í dag er ég mjög hamingjusamur. Ég er edrú en hef alveg fallið annað slagið, en það eru aldrei langir túrar og mér hefur borið gæfa til að standa aftur á lappir. Ef ég hins vegar missi stjórn á lífi mínu og dett í neyslu hef ég ekki hugmynd um hvað ég geri. Ég get alveg reynt að ljúga því að ég sé orðinn heilagur, en svo er ekki. Ég veit alveg hvað ég þarf að gera til þess að halda mér góðum. Ég þarf að stunda mína vinnu innan AA-samtakanna, spegla mig í öðrum og vera opinskár og heiðarlegur við sjálfan mig og aðra með mína vankanta og galla. Ég veit að ég gæti orðið milljónamæringur á hálftíma í undirheimunum, en ég veit líka að fallið yrði hátt – easy come, easy go.“

Talið berst að því æskunni, en rannsóknir sýna fram á að áföll í æsku geti litað fullorðinsárin verulega.„Það er alltaf einhver grunnpunktur sem tjónar þig eða breytir þér, hann þarf ekki einu sinni að vera stór. Fyrir mig var gríðarlegt áfall að missa pabba og það er líklega mín beygla. Ég hef alla tíð verið góðhjartaður og hjálpsamur. Systur mínar, sem aldar eru upp við sömu aðstæður og ég, gætu hins vegar ekki brotið lög. Ég er öðruvísi með það og veit ekki af hverju. Ég hef alltaf verið áhættusækinn og lifað hraðar en aðrir. Ég hef í raun aldrei haft vit á því að vera hræddur, bara látið vaða, en það er líka ókostur. Stundum held ég að ég sé fæddur glæpamaður. Enn í dag fæ ég hugmyndir um að fara styttri leiðina, en sem betur fer er ég orðinn klár í því að rökræða við hausinn á mér og sjá að það er bara vitleysa.“

Lestu einnig: Grétar keypti og gaf mat fyrir 60 þúsund

Gefur út barnabók fyrir jólin handa börnum sem minna mega sín

Grétar er um þessar mundir að leggja lokahönd á barnabók sem hann hyggst gefa út fyrir jólin, en hugmyndin að henni kviknaði þegar hann var að segja syni sínum sögur fyrir svefninn. Hún ber nafnið Sammi og Malli, en hann stefnir einnig á að gefa út spil í tengslum við hana. Grétar skrifar textann en myndirnar eru eftir Serbneska listakonu. „Ég bjó til karaktera sem sífellt rötuðu í skemmtileg ævintýri og við skemmtum okkur báðir alveg konunglega. Ætli það sé ekki upphafið af þessu öllu saman.“

Þetta eru smásögur um tvíburana Samma og Malla, en þær fæðast ansi hratt þessa dagana. Grétar segir sögurnar fjalla um hvers kyns norm, eða öllu heldur koma því inn að normið sé alls konar. „Það er eðlilegt að eiga eina mömmu eða einn pabba. Það er líka eðlilegt að eiga tvo pabba og tvær mömmur. Það er líka eðlilegt að alast upp hjá ömmu sinni, bara að alls konar aðstæður séu normal.“

Grétar stefnir á að gefa bókina börnum sem minna mega sín. „Restina set ég svo í sölu. Ég þarf ekki að selja mörg eintök til þess að koma út á sléttu í þessu verkefni. Ég er sanntrúaður á karma, því meira sem ég geri fyrir aðra því betur líður mér. Alltaf þegar ég á afmæli geri ég góðverk, safna og gef þeim sem þurfa á því að halda, því sjálfan vantar mig ekki neitt. Ég í raun veit ekki um neinn sem gerir eins mikið af góðverkum og ég. Ég er enginn engill og verð aldrei hvítþveginn, segi alltaf að maður verði að leggja inn í karmabankann til þess að vega upp á móti óþekktinni.“

Lestu einnig: Grétar fagnar afmælinu sínu með einstökum hætti:„Þú verður að leggja í karmabankann til að eiga inni fyrir óþekktinni“

Viðtalið við Grétar má lesa hér og í heild sinni í Austurglugganum sem kom út í síðustu viku.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Einkaspæjari afhjúpar nýja leið hvernig makar fela framhjáhald – Forrit sem er í öllum iPhone símum og vekur engar grunsemdir

Einkaspæjari afhjúpar nýja leið hvernig makar fela framhjáhald – Forrit sem er í öllum iPhone símum og vekur engar grunsemdir
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vill að RÚV geri samning við Vesturport

Vill að RÚV geri samning við Vesturport
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina
Fókus
Fyrir 3 dögum

Framkvæmdastjórinn í Paradís flytur sig um set

Framkvæmdastjórinn í Paradís flytur sig um set