Elín Káradóttir heldur úti blogsíðu undir eigin nafni þar sem hún skrifar um jákvætt hugarfar, fjármál og lífstíl. Í þessum pistli fjallar hún um að hætta ekki að setja sér markmið, þó að upprunalega markmiðið gangi ekki upp.
Ég ætlaði… en bara hætti.
Ég ætlaði að klára að lesa eina bók í síðasta mánuði. Ég ætlaði líka að fara oftar út að hlaupa. Ég ætlaði líka að fara labbandi í vinnuna alla daga. Ég ætlaði, ég ætlaði og ég ætlaði…
Ég fer stundum fram úr mér og set mér of mörg markmið í einu. Ég verð svo spennt fyrir verkefnunum mínum og ég vil klára þau öll sem fyrst. Á sama tíma set ég niður of mörg markmið í einu. Sem leiðir iðulega til þess að ég næ ekki að klára þau öll nákvæmlega eins og ég lagði upp með í byrjun. Sérstaklega ekki á þeim tíma sem ég gaf mér.
Það er ekki óraunhæft að lesa eina bók í mánuði. En það er óraunhæft ef maður ætlar sér einungis að setjast niður í örfá skipti og gefa sér bara nokkrar mínútur í hvert skipti.
En ég er samt stolt. Þó svo að markmiðið hafi verið að lesa eina bók í síðasta mánuði, þá náði ég að klára hálfa bókina. Og er mjög spennt fyrir restinni.
„Ég hætti bara“
„Ég náði ekki að klára eina bók, eins og ég ætlaði mér – þess vegna ætla ég bara að hætta að lesa og gleyma þessu. Ég náði ekki markmiðinu mínu“ – segja margir.
Af hverju?? Af hverju að hætta við allt saman, bara vegna þess að upprunalega markmiðið gekk ekki upp? Markmiðið er ekki glatað. Hins vegar getur tíminn sem ætlaður er í að klára markmiðið verið of stuttur. Ég gaf mér ekki nægan tíma upp á hvern dag til þess að klára markmiðið eins og ég lagði upp með í byrjun. En mér dettur ekki í hug að hætta – því þannig klára ég alveg pottþétt ekki bókina.
Hvað með þig?
Ert þú alltaf að hætta þegar upprunalega planið gengur ekki upp í fyrstu tilraun?