fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

A Star is Born er efnisþunnur Óskarssegull: Glæsileg Gaga, lala handrit

Tómas Valgeirsson
Sunnudaginn 21. október 2018 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aldrei er góð vísa of oft kveðin. Aftur á móti verður hver og einn að spyrja sig hvort mörkin þar séu loðin þegar um er að ræða endurgerð af endurgerð… af endurgerð.

Það er ástæða fyrir því að A Star is Born sagan dúkkar upp á nokkurra kynslóða fresti. Þetta er tækifæri til þess að sýna krúttlega ástarsögu og gengur jafnframt þá línu að vera bransaáróður í laumi, um skuggahliðar sambanda þegar afbrýðissemi, fíkn eða aðrir djöflar spila inn í. Hverju sinni er tekinn öðruvísi vinkill á söguna í stíl við sinn samtíma. Í eðli sínu snýst hún líka um hæfileikaríkt fólk sem gefur mismunandi skemmtikröftum færi að leika allan tilfinningaskalann, hvort sem þeir heita Kris Kristofferson, Judy Garland, Janet Gaynor, Barbra Streisand, James Mason eða Lady Gaga.

Við byrjun sögunnar kynnumst við hinum færa en meingallaða Jackson Maine (Bradley Cooper).  Hann sérhæfir sig í kántrítónlist af gamla skólanum. Fyrir einskæra tilviljun rekst hann á hæfileika hinnar efnilegu Allyar (Lady Gaga). Jackson sér sig auðvitað ekki færan um annað en að daðra við stölluna og fyrr en varir eru neistar farnir að kvikna.

Jackson nýtir tækifærið til þess að koma Ally nær sviðsljósinu og á svipstundu er stjarna fædd frammi fyrir augum tónleikagesta. Eftir því sem frægðarsól Ally rís meira fer Jackson að hverfa lengra í sinn eigin skugga. Með aðstoð sopans og eiturlyfja fara innri djöflar hans að taka yfir völdin. Þá hefst kapphlaup við tímann um hvort fíknin komi á kostnað nýfundnu stjörnunnar eða hvort hægt sé að finna leið hjá þessu með mætti ástarinnar og samvinnu parsins.

Það er hæpið að segja að áhorfandinn eigi auðvelt með að halda upp á skjáparið. Strax við fyrstu kynni eru rauðu fánarnir farnir að flagga og ljóst að Jackson greyinu fylgir heljarinnar farangur. Hins vegar er kemistría þeirra ótvíræð og laumast mikill sjarmi í gegnum litlu augnablikin. Það vantar ekki heldur að umhyggja beggja einstaklinga sé áþreifanleg, en á sama tíma má spyrja sig hvort Ally sé blinduð af stökkpallinum sem Jackson hefur veitt henni í velgengninni (í fyrstu, að minnsta kosti) og hvort Jackson styðji raunverulega sinn maka eða reiði á hana sem persónulegan bjargvætt fyrir sína galla.

Gaga í nýjum búning

Bradley Cooper er algjörlega kominn á þungavigtarstigið með þessari mynd og gefur sig allan fram hispurlaust. Því er þó óskaplega erfitt að neita að þessi margsagða saga er eins tær ávísun á Óskarssegul og nokkur leikari getur vaðið í sem leikstjórafrumraun. Til að byrja með elskar Óskarsakademían sigursögur af leikurum sem spreyta sig á bakvið vélina og það hittir nær alltaf í mark þegar skemmtikraftar taka við miklum breytingum á ímynd sinni. Yfirleitt verða þá leikararnir óhemju grannir, feitir eða hreint „ljótir“ en í tilfelli Lady Gaga dugar það henni í rauninni bara að vera… feimin, krúttleg og hversdagsleg.

Óskarinn elskar líka fátt meira en hreinskilnar sögur úr bransanum (sem upphefja glamúrinn á sama tíma) og fordæmið af úrvinnslu sögunnar A Star is Born sýnir að þetta er eitthvað sem étur upp hylli bransafólks. Það er nú ekki einu sinni svo langt síðan sambærileg saga var tekin fyrir (að vísu – með nýjum vinkli) og sigraði Óskarinn, en eitthvað ógurlega hefur umtalið um kvikmyndina The Artist frá 2011 dvínað frá því að hún átti sitt móment.

Það er nákvæmlega ekkert að því að endurgera sögu ef það er hægt að finna nýja nálgun og áherslur og það reynir Cooper svo sannarlega að gera. Vandinn við það að vera svona háður upprunalegu sögunni dregur úr óvæntum stefnum (nema hjá fólki sem hefur bráðaofnæmi fyrir því að horfa á hundgamlar kvikmyndir).

Nýjasta útgáfan af þessari sögu er fjarri því að vera töfralaus, en hún dansar í gegnum svo margar yfirborðskenndar rútínur að úr verður eitthvað merkilega auðgleymt og tilgerðarlegt. Auk þess nær handritið ekki alveg að fylgja þeim loforðum sem persónurnar eru stöðugt að tönglast á: að það sé nauðsynlegt að hafa eitthvað bitastætt að segja með listinni og – kaldhæðnislega – hefur þessi kvikmynd ekkert merkilegt að segja, um alkóhólisma, frægð, frama eða sambandsdýnamík.

Handritið fitlar aðeins við umræðuna um mismun þess að selja sig út og halda í eigin gildi. Á tímapunkti virðist jafnvel vera eins og Ally sé sjálf með einhvern þráð fyrir því hvað hún vill segja eða gera með tónlistinni, en sá þráður týnist í rauninni alveg og endar hún á því að elta bara nýjustu popptrendin af færibandinu. Við sem áhorfendur kaupum hennar hæfileika tvímælalaust. Hvers vegna? Vegna þess að þetta er Lady Gaga og við vitum öll hvað í henni býr. En hvað er það sem drífur Ally áfram? Hvernig kýs hún að skara fram úr og hvað meira vill hún en að heimurinn taki eftir sér? Myndin virðist endalaust segja okkur hvað hún er framúrstefnuleg og mögnuð frekar en að sýna það í þaular.

Leiðindatuggur og predikanir

Sem leikstjóri er Bradley Cooper flinkur með samsetningar, smámunasamur á kjarna parsins og með þannig vinnubrögðum nær hann oft ótrúlegum töfrum úr sjálfum sér með henni Gaga. Þessi kjarni sést samt ekki nema annað slagið og oft með löngum millibilum.

Eins og áður var gefið til kynna nær Cooper ekki gefa Gaga alveg nógu vel mótaðan karakter. Við fáum ekki sérlega mikla dýpt frá henni, eða galla. Við fáum að kynnast því í fyrri hlutanum hvað Ally er grjóthörð og ákveðin á öllu sínu en eftir því sem frægðin hennar rís í sögunni, því meira virðist Cooper vilja ýta henni til hliðar til að fókusa á sína persónu – og hennar „sjúkdóm“. Endir myndarinnar er hannaður til þess að leika á tilfinningar áhorfenda, en ákvörðunin virðist koma eins og melódramatísk lausn sem gerir Jackson í rauninni bara að óviðkunnanlegri karakter. Aukapersónur dafna heldur ekkert sérstaklega vel og eru þær nánast þarna til þess að vera fóður fyrir einræður og predikanir í garð Jacksons.

Óháð því hvort sagan hafi verið fest áður á filmu er þetta á marga vegu eins og að horfa á blöndu af Once og Crazy Heart. Cooper finnur sinn innri Kris Kristofferson og mjólkar hvert tækifæri til að sýna brotnari, átakanlegri hliðar sínar í ólgandi nærmyndum. Að vísu verður það að segjast að Cooper hefur aldrei verið betri í nokkru hlutverki (og skákar hann þar með Silver Linings Playbook) en sem persóna er Jackson fastur í fínni melódíu með leiðindatexta.

Ojæja, sjáum hvað setur með þessa sögu þegar hún verður næst endurgerð á bilinu 2030 til 2050.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Valentína Hrefnudóttir: „Það versta sem gat gerst var að ég myndi prufa þetta og hata þetta“

Valentína Hrefnudóttir: „Það versta sem gat gerst var að ég myndi prufa þetta og hata þetta“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fór í trekant með eiginkonunni og nágrannanum – Það rústaði hjónabandinu

Fór í trekant með eiginkonunni og nágrannanum – Það rústaði hjónabandinu
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kynlífsóðu klámstjörnunni sparkað úr landi

Kynlífsóðu klámstjörnunni sparkað úr landi
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Eiríkur Bergmann með afar persónulega bók – Lýsir ferðalagi frá örvæntingu til sáttar

Eiríkur Bergmann með afar persónulega bók – Lýsir ferðalagi frá örvæntingu til sáttar
Fókus
Fyrir 4 dögum

Bjarni Ben farinn að gefa eftir í bekkpressu – Sjáðu myndbandið

Bjarni Ben farinn að gefa eftir í bekkpressu – Sjáðu myndbandið