Einar Darri Óskarsson, 18 ára drengur í blóma lífsins, var bráðkvaddur á heimili sínu þann 25. maí vegna lyfjaeitrunar. Fjölskylda og vinir Einars Darra stofnuðu minningarsjóð í nafni hans sem ætlaður er fyrir ungmenni í fíknivanda. Minningarsjóðurinn stendur fyrir og styrkir þjóðarátakið #egabaraeittlif.
Bleiku armböndin með áletruninni Ég á bara eitt líf hafa vakið athygli þjóðarinnar, en minningarsjóðurinn er með nokkur yfirstandandi verkefni í gangi og önnur í undirbúningi. Á meðal yfirstandandi verkefna má nefna armböndin og auglýsingar fyrir þau, auk fræðslu og forvarnarmyndbanda.
Ný heimasíða með vefverslun og fatalínu
Á sunnudag kl. 12 opnar minningarsjóðurinn nýja heimasíðu, egabaraeittlif.is, og vefverslun, auk þess sem ný fatalína verður sett í forsölu, en allur ágóði af sölu fatnaðarins rennur til forvarnarfræðslu í grunnskólum. Minningarsjóðurinn hefur þegar skrifað undir samning við Hvalfjarðarsveit um fræðslu þar.
Fatalínan samanstendur af hettupeysu, „crew neck“-peysu, stuttermabol, húfu og tösku. Allar vörur koma í þremur litum: bleikum, svörtum og hvítum. „Crew neck“-peysurnar fást bæði með áletrun og ekki, henta þær síðarnefndu því vel þeim sem vilja styrkja átakið og klæðast fatnaðinum, en geta ekki verið í of áberandi fatnaði starfs síns vegna eða af annarri ástæðu. Á öllum peysum er ofinn miði neðst með myllumerkinu á.
„Lógóið er nafn Einars Darra og kross af því að hann er farinn. Bleiki liturinn af því að hann var uppáhaldslitur hans,“ segir Una Hlín Kristjánsdóttir, ein af eigendum Duty, en hún sá um hönnun fatnaðarins. „Einar Darri er þarna uppi og vakir yfir okkur,“ segir Andrea Ýr Arnarsdóttir, systir hans. „Hann er verndarengillinn okkar.“
Myndirnar eru teknar af Ástu Kristjánsdóttur heima hjá Einari Darra í svefnherberginu hans og eru fyrirsæturnar ungmenni víðs vegar að úr samfélaginu.
Allar upplýsingar um Minningarsjóð Einars Darra, fatalínuna og önnur verkefni sjóðsins, bæði yfirstandandi og tilvonandi má finna á heimasíðu sjóðsins.
Stöndum saman og styðjum þjóðarátakið, Ég á bara eitt líf.
Kennitala: 510718-1510, reikningsnúmer: 552-14-405040