Kvikmyndagerðarmaðurinn Baldvin Z hefur mörg járn í eldinum þessa dagana en hans næsta verkefni verður ný íslensk sjónvarpsþáttaröð um barnsrán í Suður-Ameríku. Baldvin greindi frá þessu í útvarpsþættinum Ísland vaknar á K100 í morgun og segir að vinnsluheiti þáttanna sé The Trip.
Baldvin er einn aðstandenda framleiðslufyrirtækisins Glassriver, sem sér um framleiðslu þáttanna og segir leikstjórinn að þættirnir verði lauslega byggðir á sönnum atburðum. Hver þáttur verður um klukkustund að lengd og verða þeir tíu talsins.
Söguþráður seríunnar fjallar í grunninn um nokkra Íslendinga á ferðalagi í Puerto Rico. Á meðal þeirra er ein kona sem ferðast með þriggja ára tvíbura sem verður rænt í ferðinni. „Það er smá svona alþjóðabragur á þessu. Þetta verður tekið upp hér heima, í Puerto Rico og Ameríku líka,” segir Baldvin en hann bætir við að stærstu hlutverkin verði í höndum Íslendinga þó erlendum leikurum bregði jafnframt fyrir í nokkrum stórum hlutverkum.
Tökur hefjast næsta vor en framundan hjá Baldvini er að frumsýna nýjustu mynd sína, Lof mér að falla, á kvikmyndahátíðinni Busan í Suður-Kóreu. Hátíðin hefur göngu sína í vikunni og stendur til 13. október, en þar mun myndin taka þátt í World Cinema hluta hátíðinnar. Þetta verður frumsýning myndarinnar í Asíu og er um að ræða stærstu kvikmyndahátíð heimsálfunnar.
Sjá einnig: Lof mér að falla tekjuhæsta íslenska mynd ársins
Hlusta má á viðtalið við kvikmyndagerðarmanninn í heild sinni hér að neðan en reiknað er með því að þættirnir hefji sýningar á þarnæsta ári í sjónvarpi Símans.