Lýður Guðmundsson, annar eigandi Bakkavarar, hefur keypt eitt dýrasta einbýlishús landsins, Skildinganes 44, af Helgu Maríu Garðarsdóttur, stjórnarformanni Ægis sjávarfangs. Hún er eiginkona Ingvars Vilhjálmssonar fyrrverandi framkvæmdastjóra markaðsviðskipta Kaupþings, en hjónin reka Ægir sjávarfang sem framleiðir niðursoðna þorkslifur.
Smartland greindi fyrst frá kaupum Lýðs á eigninni, en húsið við Skildinganes er 456,7 fm að stærð, hannað af Sigurði Hallgrímssyni arkitekt og byggt árið 2009. Húsið stendur við sjávarlóð í Skerjafirði og hafa innréttingarnar í húsinu vakið athygli en þær hannaði Guðbjörg Magnúsdóttir. Helga María og Ingvar fluttu í húsið árið sem það var byggt.
Húsið er tvær hæðir; stór stofa, borðstofa, eldhús með sjónvarpskrók, fjögur herbergi, fjölskylduherbergi, tvö baðherbergi, snyrting og fataherbergi. Þá fylgir eigninni tvöfaldur bílskúr, gróinn garður, heitur pottur og útisturta.
Fyrirhugað fasteignamat hússins 2019 er rúmar 250 milljónir, en verðmiðinn á húsinu var ekkert slor: 295 milljónir króna.
Ingvar var einn af aðalmönnunum í Kaupþingi þegar bankinn féll. Hann átti hlutabréf í bankanum að verðmæti rúmlega tveir milljarðar við fall bankans og vakti athygli að hann breyttist skyndilega í eignarhaldsfélagið Ingvar Vilhjálmsson ehf. á hluthafalista bankans daginn áður en bankinn fór í þrot í október árið 2008. Á sama tíma skráði hann höllina í Skildinganesi 44 á eiginkonu sína.