fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Fókus

Þegar Fazmo og Kallarnir áttu Ísland

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 19. október 2018 21:00

Kallarnir Vöðvastæltir og tanaðir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrr um þrettán árum voru tvær strákaklíkur áberandi í íslenskum fjölmiðlum. Annars vegar fjölmenn klíka upprunnin úr Fossvogshverfinu sem kallaðist Fazmo. Hins vegar gengið Kallarnir og komu flestir þeirra úr Kópavoginum. Báðar klíkurnar héldu uppi heimasíðu og gengu pillurnar á milli þeirra.

 

Fazmo
Oft í fréttum í tengslum við ofbeldi.

Fazmo annáluð fyrir ofbeldi

Fazmo-klíkan taldi um tuttugu meðlimi en tveir þeirra voru mest áberandi; Ingvar Þór „Bleiki“ Gylfason og Hallgrímur Andri Ingvarsson, betur þekktur sem Bronsmaðurinn. Sáu þeir um heimasíðuna sem hélt utan um hópinn, fazmo.tk og síðar fazmo.is.

Fljótlega varð klíkan alræmd fyrir ofbeldismál sem upp komu. Eitt málið kom upp um miðjan apríl árið 2005 vakti mikla athygli en einn af þeim sem varð fyrir barðinu á Fazmo-mönnum þá var Nökkvi Gunnarsson, knattspyrnumaður og kylfingur.

Í DV 19. apríl það ár segir að Fazmo-menn hafi staðið í röð fyrir utan skemmtistaðinn Hverfisbarinn og viljað troða sér fram fyrir. Þegar einn í röðinni mótmælti réðust þeir að honum nokkrir saman.

„Högg og spörk voru látin dynja á manninum þar sem hann lá í jörðinni, bjargarlaus gegn svo mörgum árásarmönnum.“

Nökkvi gekk á milli en þá var ráðist á hann. Hann sagði:

„Ég gat bara ekki horft upp á þessa stráka drepa manninn. Ég fékk örugglega hátt í tuttugu spörk í höfuðið.“

Eftir þetta montuðu Fazmo-menn sig á heimasíðu hópsins. Þegar á leið og orðspor Fazmo var orðið súrt reyndu leiðtogarnir að breyta ímyndinni og fjarlægjast ofbeldið.

Dabbi Grensás
Kýldi Sveppa og baðst afsökunar.

Dabbi Grensás lamdi Sveppa

Einn þekktasti meðlimur Fazmo var Davíð Smári Helenarson, betur þekktur sem Dabbi Grensás. Davíð hefur fengið margar kærur á sig fyrir líkamsárásir í gegnum tíðina og dóma, síðast árið 2011. Leiðtogar Fazmo vissu af hegðun Davíðs þegar hann kom inn í hópinn en í upphafi árs 2006 kom upp atvik þar sem hann lenti utangarðs í hópnum.

Þá sló Davíð Sverri Þór Sverrisson, eða Sveppa, í andlitið og þurfti hinn síðarnefndi að leika Kalla á þakinu með glóðarauga í Borgarleikhúsinu. Davíð hringdi í kjölfarið í Sveppa og baðst afsökunar og var árásin ekki kærð.

Ingvar og Hallgrímur tóku hins vegar svo kallað áskorunarhorn Davíðs út af heimasíðu sinni tveir.is þar sem þeir voru orðnir langþreyttir á að hópurinn væri bendlaður við ofbeldisverk. „Sumir læra einfaldlega seinna en aðrir,“ sögðu félagarnir.

 

Sveppi og Nökkvi
Lentu illa í Fazmo-mönnum.

Mála og selja fæðubótarefni

Margir meðlimir voru í Fazmo-klíkunni og má þar nefna Georg Zankovic, kallaðan Montana, og Guðmund Borgar eða Gullmolann. Eftir að klíkan leystist upp héldu Ingvar og Hallgrímur samstarfinu áfram og komu upp vefveldi. Ráku þeir djamm-, leikja- og tenglasíður á borð við pose.is, leikjaland.is, tveir.is og 69.is. Einnig voru þeir með útvarpsþátt á stöðinni Flass 104,5.

Hallgrímur og Ingvar
Leiddu Fazmo-klíkuna í gegnum ólgusjó.

Ingvar er verkfræðingur, crossfit-þjálfari og sjálfmenntaður málari sem nýlega komst í fréttirnar fyrir að gefa ljósmæðrum málverk eftir að barn hans kom í heiminn.

Hallgrímur Andri hefur komið víða við í viðskiptalífinu. Meðal annars hefur hann rekið heilsulindina Fish Spa Iceland, þar sem fiskar narta dauða húð af fótum viðskiptavina, og Sportlíf í Glæsibæ sem selur fæðubótarefni og fleira.

 

Kallarnir „sprengdu í kellingar“

Vefsíðan kallarnir.is var opnuð um áramótin 2003/2004 og vakti strax mikla athygli, sérstaklega færslur leiðtogans Egils „Gillzeneggers“ Einarssonar. Á síðunni var ungum mönnum kennt ýmis fræði, til dæmis hvernig ætti að viðhalda brúnku, snyrta á sér kynhárin og hvar best væri að fá sér strípur í hárið. Þegar Fazmo kom fram á sjónarsviðið gengu pillur á milli meðlima hópanna á spjallsvæðunum þar og talað um áflog í nokkur skipti.

Fljótlega urðu Kallarnir áberandi í fjölmiðlum og í Fókus birtist grein með fyrirsögninni „Við sprengjum í kellingar sem þið rúnkið ykkur yfir.“ Það var enginn millivegur, annaðhvort hataði fólk Kallana eða elskaði. Egill varð frægur og stýrði meðal annars útvarpsþættinum Kjappinn á Kiss FM. Fljótlega birtist þó annar meðlimur sem varð einnig landsþekktur, Jóhann Ólafur Schröder, betur þekktur sem Partí Hans. Urðu hann og Egill andlit Kallanna út á við.

Frægðin vatt upp á sig árið 2006. Sjónvarpsþáttur á Sirkus, útvarpsþáttur á X-inu og bók Egils, Biblía fallega fólksins, birtust landsmönnum. Sumarið 2006 lokaði Partí Hans hins vegar síðunni og má þá segja að tími Kallanna hafi verið liðinn.

 

Hjöbbi Ká
Fórnaði Köllunum fyrir knattspyrnuna.

Hjöbbi Ká rekinn úr hópnum

Egill hefur verið landskunnur allar götur síðan, bæði í útvarpi og sjónvarpi. Er hann til dæmis einn af stjórnendum þáttarins FM95Blö. Lífið hefur hins vegar ekki verið ein sigurganga því árið 2012 var hann kærður fyrir nauðgun en málið var fellt niður. Í kjölfarið sat Egill undir ásökunum á opinberum vettvangi og fór alla leið til Mannréttindadómstólsins í Haag til að hreinsa sig af þeim.

Minna hefur farið fyrir Partí Hans á undanförnum árum. Um tíma skipulagði hann Íslandsmót í póker og nú er hann stjórnarformaður Jivaro sem sérhæfir sig í hugbúnaði fyrir þá spilamennsku.

Hjörvar Hafliðason, eða Hjöbbi Ká, var meðlimur Kallanna. Íslendingar þekkja hann best sem einn af þáttastjórnendum Brennslunnar á FM 957. Hjörvar var áður knattspyrnumarkvörður hjá Val og Breiðabliki. Hjörvar var rekinn úr félagsskapnum sumarið 2005 fyrir lélega mætingu á djamminu sem kom sér vel fyrir knattspyrnuferilinn.

Sveinn Atli Diego
„Ég leggst á bakið og þú verður þakið.“

Cosmo Crew kom of seint

Margir halda að Fazmo og Kallarnir hafi setið einir að borðinu en það er ekki rétt. Þriðja klíkan, Cosmo Crew, tók til starfa í kringum áramótin 2006 en náði þó ekki sömu hylli og þær fyrrnefndu. „Cosmo Crew cumin thru“ voru einkunnarorðin og var heimasíðan mjög í anda Fazmo og Kallanna.

Forsprakki og að því virðist eini meðlimur Cosmo Crew, var Sveinn Atli Diego sem þá var keppandi í Herra Ísland og skólastjóri Metróskólans. Í þeim skóla var lúðum kennt að verða hörkufolar í áfangakerfi. Í samtali við DV 3. febrúar árið 2006 sagði hann:

„Það eru nú einhverjir sem ætla að taka þetta í fjarnámi en ýmsir áfangar eins og til dæmis RÚM 102 eru verklegir.“

Þá kenndi hann einnig línur til að ná í „prinsessur.“ Ein þeirra hljóðaði svo: „Ég leggst á bakið og þú verður þakið.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Svona er einfalt mataræði og morgunmatur Victoriu Beckham 

Svona er einfalt mataræði og morgunmatur Victoriu Beckham 
Fókus
Fyrir 3 dögum

Leikarastéttin flykktist á óhugnanlega frumsýningu

Leikarastéttin flykktist á óhugnanlega frumsýningu