Í gærkvöldi opnaði fyrsta einkasýning Ísaks Marvins, en það er sýningin Innsýn sem verður haldin á Grundarfirði. Ísak hefur verið að gera það gott í myndlist upp á síðkastið. Ísak hefur áður tekið þátt í hinum ýmsu samsýningum ,,en ég hef aldrei haldið einkasýningu áður. Það er klikkað að vera að fara að sýna í fyrsta sinn einn. Það er ótrúlega gaman. Ég er að farast úr spenningi, og smá stressi að sjálfsögðu.”
Fjölskylda Ísaks er frá Grundarfirði og þessvegna á staðsetningin sérstaklega vel við fyrstu sýninguna. ,,Það er eitthvað rómantískt við að halda fyrstu einkasýninguna í heimabæ mínum.”
Til sýnis verða átta verk, fimm verða til sölu en þrjú eru þegar seld. Meðal annars verður verk til sýnis sem tók tvö heil ár að mála. ,,Það er alveg góður tími sem fór í það.” Annars segir Ísak að það sé ómögulegt að reikna út hver heildarvinnan og erfiðið var á bakvið sýninguna. ,,Tvö verk krefjast yfirleitt vinnu sem myndi skila góðum mánaðarlaunum. Það segir eitthvað um tímann og vinnuna sem hefur farið í þessa sýningu.”
Ísak er nýbyrjaður í tveggja ára diplómanámi Myndlistarskóla Reykjavíkur, en kennararnir þar hafa verið mjög skilningsríkir varðandi mætingu Ísaks á meðan hann er að undirbúa sýninguna, enda er reynslan oft ekki síðri skóli. ,,Þetta er mjög góð æfing fyrir mig. Það kom kennurunum alveg á óvart að ég væri að fara að sýna upp á eiginn spýtur og væri að vinna í þessu á fullu.”
Málverk eftir Ísak eru stórbrotin og full af smáatriðum. Ísak segir að hann leggi ekki aðaláherslu á smáatriðavinnu. Smáatriðin fæðast sjálf þegar hann vinnur að heildarútliti hvers og eins málverks.
,,Heildarmyndin þarf að virka. Það þýðir ekki að demba sér í pínulítinn pensil, í einhverja punkta og línur. Stíllinn minn einkennist af mikilli hreyfingu og hraða. Ég mála mjög hratt. En ef þú skoðar málverkin vel þá er allt fullt af smáatriðum. En ég fókusa minna á þau.”
Margir segja að málverk Ísaks séu landslagsmyndir. ,,Ég skil alveg fólk sem segir það, það er landslag í myndunum mínum. En ég lít á það sem svo að ég máli út frá tilfinningunni. Ég mála út frá hjartanu og eigin reynslu, sem verður ein stór blanda í málverkinu.”
Ísak er að skipuleggja aðra einkasýningu á höfuðborgarsvæðinu, en það er enn óvíst hvenær hún verður haldin. Hann sér svo fram á að klára námið í Myndlistarskóla Reykjavíkur, áður en að fljúga úr hreiðrinu og halda út í heimstúr. ,,Ég ætla að fara um leið og ég er búinn í skólanum. Það er bara spurning hvort ég fari til Berlínar, Barcelona eða eitthvert til Ítalíu. Þetta kemur allt í ljós. Eða bara eitthvert.”
Það verður gaman að fylgjast með framhaldinu hjá Ísak og fleiri flóknum, óræðum málverkum sem hann mun mála.
Hér er hægt að finna nánari upplýsingar um sýninguna