Birgir Örn Guðjónsson, Biggi lögga, bendir í nýjustu færslu sinni á Facebook á hversu fáránleg tilboð íslensku flugfélaga eru oft á tíðum. Spyr hann af hverju íslenskir neytendur samþykkja svona hegðun. Biggi vill að flugfélögin komi hreint fram og auglýsi hvað hlutirnir kosta í raun og veru.
„ATH!
Nýju Nike skórnir eru loksins komnir og á alveg hreint ótrúlegu tilboði. Aðeins 1990kr!!* Fyrstir koma fyrstir fá.
*Hægri skórinn. Án skóreima og innleggs. Gildir aðeins ef keyptir eru báðir skórnir og borgað er með netgíró.
————————————–
Þessi auglýsing væri gjörsamlega fáránleg, það sjá það allir. Af hverju í ósköpunum er þá í lagi að auglýsa flugfargjöld á þennan hátt? Þú færð aðra leiðina á spott prís en getur samt ekki keypt hana á þessu verði nema þú kaupir miða til baka á miklu hærra verði. Þú kaupir vinstri skóinn á 16.990 og þá máttu kaupa þann hægri á 1990! Af hverju samþykkja neytendur svona hegðun? Hvernig væri að koma bara hreint fram og segja okkur hvað auglýst vara kostar í raun og veru? Þetta er bara kjánalegt.“