Íslenska rappflóran hefur sjaldan verið eins framandleg og fjölbreytt og um þessar mundir og hefur Laugardalurinn nýlega verið að marka sín fyrstu spor í íslenskri rappsögu. Þar má helst nefna marga meðlimi rapphópsins Shades of Reykjavík og Landabois sem eru úr Laugardalnum og sjá má að samstaða innan hverfisins er augljóslega mikil og tónlistarmenn eins og Igna eru gott dæmi um það, segir í grein á Babl.is um tónlistarmann mánaðarins Igna.
Fyrir ári kom út platan ,Ekki Seinna eftir Helga B úr Landabois og Ignatius Valdimar Sigurðsson eða Igna, eins og hann kallar sig, en það er fyrsta platan sem Igna gefur út.
Igna hefur verið að fikta við að rapp frá því hann var í áttunda bekk en fyrst var hann að rappa á ensku. ,,Ég bjó úti í Danmörku og vildi ekki vera að fikta við íslenskt rapp þá. Það var ekki fyrr en á síðasta ári sem ég byrjaði að rappa á íslensku, þegar ég gaf út plötuna. Þá var ég búinn að uppfylla samning sem ég gerði við sjálfan mig um að verða góður í að frístæla á ensku áður en ég byrjaði að rappa fyrir alvöru.
Igna vill meina að það hafi hjálpað flæðinu í íslensku textunum sínum að læra að frístæla á ensku. ,,Það er samt allt öðruvísi að skrifa á ensku. Ég veit ekki hvað það er, það er bara eitthvað annað “vibe.” Mér finnst persónulega auðveldara að skrifa lag á ensku frekar en íslensku,” en fyrsta lagið sem Igna gaf út var einmitt á ensku og bar titilinn Athena. ,,Rím á íslensku eru miklu flóknari, það er erfiðara að finna flottar línur og láta allan textann í einhverju lagi passa saman. En á ensku þá rúllarðu bara í gegnum lagið.”
Hinsvegar segir Igna að hlustendur nái betur að tengja við það sem hann skrifar á íslensku. Eftir að hann byrjaði að gefa út á íslensku er fólk niðri í bæ byrjað að koma upp að honum og hrósa honum, „sem er geggjuð tilfinning.”
Starri sem er búinn að vera að vinna mikið með Landabois sem gaf plötuna út. ,,Hann er náttúrulega galdramaður,” að sögn Igna en margir telja Starra vera einn fremsta tónlistarframleiðanda íslenskra rappara um þessar mundir.
,,Maður er kannski með honum í stúdíóinu, biður um eitthvað sérstakt og hann buffar það upp í fimmtíu. Hann er fáránlega góður. Tónlistarframleiðendur þurfa að fá meiri athygli. Einhver rappari verður kannski frægur fyrir eitthvað lag en framleiðandinn er alveg jafn mikil rokkstjarna. Hann er ,,the man behind the magic,” en fyrir hvern klukkutíma sem fer í að taka upp fara margfalt fleiri tímar í eftirvinnslu.
,,Áður en ég byrjaði að vinna að plötunni hélt ég að það væri ekkert mál að henda í eina slíka en þegar ég fór að vinna með Helga B og Starra sá ég hvað það er mikil vinna á bakvið svona plötu. Fyrir utan það þá voru öll „beat-in“ sem við fengum frá Starra eitthvað sem hann samdi sjálfur upp í stúdíói.“
Igna segir að það versta við að vinna með einhverjum jafn flottum og Starra sé að ná honum ekki á hlaupunum. ,,Mér líður aldrei verr en þegar Starri er með eitthvað geggjað „beat“ og ég get ekki klárað það. Þess vegna er mjög hvetjandi að vinna með honum. Mímir Bodinaud „Pixxa“ er hinn gæinn sem framleiðendur taka upp fyrir mig eins og lagið Beast. Mímir er svona „allt mulig“ maður, gerir allt saman, getur tekið upp myndbönd, myndir og er eiginlega góður í öllu sem tengist tónlist.”
Annars er Igna búinn að vera mikið að vinna með strákunum í Landabois, en eins og áður sagði var Helgi B að vinna með Igna í plötunni hans. Igna segir að strákarnir séu búnir að hjálpa sér mjög mikið hvað varðar skrif á íslenskum textum. ,,Sérstaklega Helgi B, hann tók mig alveg í gegn. Ég var ekki búinn að finna flæðið mitt og stílinn minn í tónlist á íslensku en ég fann hvoru tveggja þegar ég fór að vinna í plötunni með honum.”
Igna segir að hann sé samt alls ekki með fastmótaðan stíl, hann er enn í þróun. ,,Til dæmis er ég að fara að gefa út lag bráðum þar sem ég er að gera hluti sem ég hef aldrei prófað áður. Persónulega fíla ég það lag mjög mikið og get ekki beðið eftir að gefa það út.”
„Bestu lögin koma þegar ég er glaður“
Bestu lög Igna að hans mati eru þau sem komu til hans þegar hann var glaður. ,,Ef ég er geðveikt glaður í stúdíóinu þá næ ég að skrifa endalaust og fíla mig miklu betur. Ég fæ meira sjálfstraust. Ég ströggla mest ef ég pæli ógeðslega mikið í því sem ég er að skrifa, þó ég hafi sent frá mér lög þar sem ég er að grafa djúpt innra með mér og reyna að finna eitthvað.”
Uppáhalds lagið hingað til af eigin lögum er lagið Koma Seinna sem var á plötunni, en platan heitir einmitt Ekki Seinna.
,,Segist ætla að vera góð við mig, segist ætla að koma til mín…” er textabrot úr viðlaginu. ,,Ég var á leiðinni upp í stúdíó og var búinn að vera að hugsa allan daginn um þegar ég var yngri og stelpur voru endalaust að beila á mig. Þannig að mér datt í hug að búa bara til lag úr því og svo varð það langsamlega uppáhalds lagið mitt. Þetta er mjög skemmtilegt lag.”
Flestir ættu vissulega að geta tengt sig við það. ,,Helsti innblástur minn er persónuleg reynsla mín í lífinu. Mér líður best þegar ég skrifa um eitthvað sem ég hef gengið í gegnum sjálfur.”
Hlustarðu mikið á eigin tónlist?
„Já og ég held ég sé stærsti aðdáandi minn. Ég hef gert lög sem ég er ekki ánægður með, það er eitt lag á plötunni sem fékk rétt að fljóta með. En ég er sáttur við flestöll lögin sem ég hef gefið út. Maður þarf náttúrulega sjálfur að hlusta á hvert einasta lag 500 sinnum stanslaust til að finna út hvort það þurfi að laga eitthvað.”
Igna segir að maður megi samt ekki vera of mikill fullkomnunarsinni. ,,Til dæmis þegar ég gaf út fyrsta lagið mitt, Athena. Það lag hafði verið tilbúið í þrjá mánuði áður en það kom út, og var ekki gefið út einfaldlega vegna þess að ég þorði ekki að gefa það út. En maður verður að stíga í óttann. Það virkar líka betur fyrir mig að gefa bara lögin út og sjá svo hvað væri hægt að gera betur næst, í staðinn fyrir að reyna að gera hvert einasta augnablik fullkomið.“
Fyrir utan eigin tónlist hlustar Igna aðallega á rapp eða trapptónlist, en segir að hann sé að útvíkka tónlistarsmekkinn um þessar mundir, hlustar á rapp með djass-undirtónum eða R&B tónlist. ,,Þegar ég var pjakkur þá hlustaði ég mjög mikið á Chris Brown og Akon. Í eigin tónlist þá er líka langoftast einhver keimur af R&B, þó ég sé ekkert endilega að reyna að hafa það.”
Mælt er með að fylgjast með Igna og missa ekki af næsta lagi hans sem kemur út á næstunni. Á meðan ábiðinni stendur er hægt að fara í gegnum plötuna Ekki Seinna á Spotify.