Það hefur ekki farið framhjá neinum að mikil spenna hefur ríkt fyrir opnun H&M Home á Hafnartorgi. Forsvarsmenn H&M hafa nú tilkynnt að flaggskipsverslun H&M Home á Íslandi, verði opnuð í Smáralind. Ráðgert er að hún opni fyrir jól, nánar tiltekið þann 9.desember segir í tilkynningu frá Smáralind.
Sturla Eðvarðsson framkvæmdastjóri Smáralindar og Tinna Jóhannsdóttir markaðsstjóri staðfesta opnun þeirra í Smáralind og segja að framkvæmdir við rýmið séu vel á veg komnar. „Verslunin verður staðsett í rými sem telur um 800 fermetra og því ljóst að vörulínan verður afar breið og úrvalið gott. Verslunin verður staðsett á neðri hæð Smáralindar við hlið H&M.
Smáralind hefur gengið vel að fá nýjar og sterkar alþjóðlegar verslanir inn til sín og í nóvember mun New Yorker opna sína stærstu og glæsilegustu verslun hérlendis í nærri 1.100 fermetra rými í Smáralind. Þá opnaði Icewear Magasín glæsilega verslun með breiðu vöruúrvali fyrir tveimur dögum í Smáralind“.
„Á næsta ári munum við svo fá til okkur tvö önnur sterk alþjóðleg vörumerki sem við vitum að munu falla vel í kramið hjá Íslendingum og styrkja Smáralind sem áfangastað. Segja má að opnun þeirra verslana sé lokahnykkurinn í endurskipulagningu Smáralindar sem staðið hefur yfir undanfarin ár,“ segir Sturla.