Hlemmur mathöll og Grandi mathöll efna til opinnar umræðu um götubitann og íslenska matarmenningu hinn 25. október við Grandabryggju og hefst hann kl. 17.
Um þessar mundir eru ýmsir aðilar að koma fram með hugmyndir um opnun staða á borð við mathallirnar á Hlemmi og á Granda. Það er kraftur í íslensku athafnafólki og þegar ágætlega hefur gengið með mathallirnar þá er ekki að sökum að spyrja; nú ætla margir frumkvöðlar að opna götubitastaði. Götubitamenning hefur eflst mikið víða um hinn vestræna heim en svo virðist sem hún verði hvergi hraðari en á Íslandi á næstu misserum. Það er ágætt að staldra við og huga að því hvernig svona umbreyting í götubitamenningu geti orðið sem skemmtilegust og fjölbreyttust hérlendis.
Markmiðið er að vekja athygli á þeim spennandi tækifærum sem íslenskir framleiðendur og frumkvöðlar standa frammi fyrir í ljósi breytinga á matarvenjum og hvernig Íslendingar geti nýtt sér eiginleika og sérstöðu landsins til að mæta, og jafnvel móta, kröfur neytenda framtíðarinnar, segir í tilkynningu frá skipuleggjendum.
Fimm einstaklingar halda örfyrirlestra um þróun götubitamenningar (street food) hérlendis og erlendis og hvernig Íslendingar og íslenska eldhúsið geti meðtekið þann áhuga sem er á götubitanum um allan heim.
Fyrirlesarar:
Lotte Kjær Andersen framkvæmdastjóri Torvehallerne: „Overall trends of street food and food markets“.
Róbert Aron Magnússon stofnandi Box Street food: „Reynslan af rekstri Box Street Food“.
Steingrímur Sigurgeirsson vinotek.is: „Götubitinn frá sjónarhóli sælkerans“.
Laufey Haraldsdóttir lektor við Háskólann á Hólum: „Íslenska eldhúsið og götubitinn“.
Edda Ívarsdóttir borgarhönnuður: ‚,Reykjavík, skipulag götubitasölu“.